Breskir stúdentar fá aftur aðgang að Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins samkvæmt samningi sem bresk stjórnvöld og ESB kynntu í dag. Sex ár eru síðan Bretar hættu þátttöku í þessari áætlun, í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um útgöngu úr Evrópusambandinu. Í yfirlýsingu frá breskum stjórnvöldum er gert ráð fyrir að um 100 þúsund stúdentar gætu tekið þátt í þessari áætlun árið 2027, þegar þátttaka Breta hefst á ný. Bresk stjórnvöld ætla að borga 570 milljónir evra inn í þessa áætlun, en segja þó að samningaviðræður hafi gefið þeim ríflegan afslátt. Litið er á samninginn sem hluta af þeirri stefnu sem núverandi stjórnvöld í Bretlandi hafa markað um nánara samstarf við Evrópusambandið; í yfirlýsingunni í dag var einnig talað um að árangur hefði náðst í viðræðum um aðkomu Breta að orkumarkaðnum á meginlandinu og þátttöku þeirra í ETS viðskiptakerfinu um losunarheimildir. Stefnt er að því að ljúka þeim viðræðum fyrir leiðtogafund Bretlands og Evrópusambandsins á næsta ári. Erasmus+ er í raun styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál. Á yfirstandandi fjárhagsáætlun Evrópusambandsins er veitt 26 milljörðum evra í þessa áætlun. Frá því Ísland hóf þátttöku sína í Erasmus+, árið 1991, á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, hafa um 30 þúsund íslenskir stúdentar tekið þátt í þessari áætlun.