„Megum ekki sofna á verðinum“

Straumhvörf urðu í viðhorfi til snjóflóða á Íslandi eftir snjóflóðin 1995, segir deildarstjóri á Veðurstofunni. Brýnt að ljúka ofanflóðavörnum við byggðir á hættusvæðum. Skýrsla rannsóknarnefndar um snjóflóðið í Súðavík 1995 var birt á mánudaginn og Harpa segir sérfræðinga Veðurstofunnar ætla að taka sér tíma í að kynna sér það sem í henni stendur: „Það hefur greinilega verið lögð mikil vinna í þessa skýrslu, hún er ítarleg og umfangsmikil og við á Veðurstofunni munum setjast niður og lesa hana vel yfir og sjá hvað það er sem við getum lært af henni til framtíðar,“ segir Harpa Grímsdóttir, deildarstjóri ofanflóðavarna á Veðurstofu Íslands. Andvaralaus gegn hættunni Harpa segir að nokkuð andvaraleysi hafi ríkt á árunum fyrir 1995. Eftirlit með snjóalögum hafi verið nýtilkomið og oft á höndum bæjarstarfsmanna sem einnig höfðu aðrar skyldur. Slíkt eftirlit var sett á með fyrstu lögum um snjóflóðavarnir sem sett voru árið 1985. Sérfræðingar Veðurstofunnar ætla að leggjast yfir rannsóknarskýrslu um snjóflóðið í Súðavík og læra af henni, segir deildarstjóri Ofanflóðavarna. Hún segir brýnt að efla fræðslu og ljúka ofanflóðavörnum við byggð á hættusvæðum. „Á þessum tíma í snjóeftirlitinu gátu menn heldur ekki reitt sig mikið á mælitæki, það voru fáar veður stöðvar, engir snjómælar eða neitt slíkt sem við höfum mikið meira af í dag,“ segir Harpa. Vitum ekki enn nákvæmlega hvar og hvenær snjóflóð falla Í skýrslunni kemur jafnframt fram að fólk hafi ekki talið næga þekkingu á hegðun snjóflóða til staðar hér á landi. Harpa bendir á að það hafi flækt störf snjóeftirlitsmanna enn frekar. „Þetta er auðvitað samt flókið mál því snjóflóðahætta er flókin samskipti snjóalaga og veðurs og það er í sjálfu sér ekki búið að finna leið enn í dag til að segja til um nákvæmlega hvar og hvenær snjóflóð muni falla,“ segir hún. Árið 1995 olli straumhvörfum. Lögum um snjóflóðavarnir var breytt og þá var lögreglustjórum fyrst falið að ráða starfsmenn til að fylgjast með snjóflóðahættu. Tveimur árum seinna fluttust þessi verkefni til Veðurstofunnar. Stóru snjóflóðin voru vitundarvakning Þrátt fyrir að snjóflóð hafi áður fallið á byggð í Neskaupsstað og á Patreksfirði hafi fólk vaknað til meðvitundar eftir stóru snjóflóðin 1995 og áttað sig á því að víða var íbúabyggð á snjóflóðahættusvæðum. „Síðan þá er búið að gera hættumat fyrir bæi og þorpið þar sem snjóflóðahætta er talin vera umtalsverð,“ bendir Harpa á. Snjóflóðasetrið á Ísafirði tók til starfa árið 2004. „Nú höfum við öflugt eftirlit og upplýsingagjöf sem dregur verulega úr hættunni, en þessu mati fylgir samt alltaf einhver óvissa.“ Skipulag byggðar og varnir besta forvörnin Harpa segir bestu forvörnina gegn snjóflóðum vera fólgna í að taka tillit til snjóflóðahættu í skipulagi. Á hættulegum svæðum eru hús rýmd ef þörf þykir. Á allra hættulegustu svæðunum þykir rýmingaráætlun ekki nóg. „Þar þurfti að grípa til varanlegri aðgerða, ýmist að kaupa upp hús og flytja byggð eða að verja hana með þá varanlegum vörnum,“ segir Harpa. Í skýrslunni kom fram að meðal þess sem kom í veg fyrir að snjóflóðavarnir risu við Súðavík í tæka tíð var fjárhagur sveitarfélagsins. Eftir 1995 var Ofanflóðasjóður styrktur verulega og sér í dag um 90% af kostnaði við varnir. Í upphafi stóð til að varanlegum vörnum yrði lokið árið 2010. Í dag er gert ráð fyrir að verkefnið klárist 2033. Búið er að reisa um 70% af fyrirhuguðum vörnum. Harpa bendir á að það megi ekki sofna á verðinum, efla þurfi fræðslu og rannsóknir og ljúka við ofanflóðavarnir á hættusvæðum í byggð.