Framfaraflokkurinn með mest fylgi í Noregi

Framfaraflokkurinn nýtur mests fylgis í Noregi samkvæmt nýrri skoðanakönnum sem gerð var fyrir norska ríkisútvarpið og dagblöðin Vårt land og Dagbladet. Hægri flokkurinn bætir einnig við sig. Borgaralega blokkin fengi meirihluta á þingi ef kosið yrði nú, og þar með væri meirihluti ríkisstjórnar Verkamannaflokksins, undir forystu Jonasar Gahr Støre, fallinn. Samkvæmt könnuninni er Framfaraflokkurinn með 27,3% fylgi, sem er tæpum tveimur prósentustigum meira en í kosningunum í september og var þá talinn mikill sigur fyrir flokkinn. Verkamannaflokkurinn er með 24,1% og hefur tapað tæpu prósentustigi frá kosningum. Hægri flokkurinn er með 17,2% sem er tæpu prósentustigi meira en síðast. Það er ekki bara Verkamannaflokkurinn sem tapar fylgi í rauðgrænu blokkinni. Rautt, Miðflokkurinn og Kristilegi þjóðarflokkurinn tapa rúmu prósentustigi hver. Rauðgræna blokkin missir alls átta þingmenn yfir til borgaralegu blokkarinnar samkvæmt könnuninni. Persónufylgi við Jonas Gahr Støre leiðtoga Verkamannaflokksins hefur einnig minnkað. Í október voru 50% aðspurðra ánægðir með hann, núna eru það 36%. Sylvi Listhaug leiðtogi Framfaraflokksins fagnar fylginu, þó að fylgið í kosningum sé það sem skipti mestu máli. „Við höldum áfram að vinna að því að koma vinstri stjórninni frá í næstu kosningum,“ sagði hún. Stjórnmálaskýrendur segja könnunina styrkja Framfaraflokkinn í sessi sem stærsta flokkinn á hægri væng stjórnmálanna. Hægri flokkurinn hefur yfirleitt verið stærstur þeim megin en hann er enn langt á eftir Framfaraflokknum í fylgi líkt og í kosningunum í september. Jonas Gahr Støre leiðtogi Verkamannaflokksins skýrir fylgistapið með nokkrum erfiðum málum sem ríkisstjórnin hafi þurft að takast á við. Þar ber hæst þegar deilur komu upp um fjárlög, sem hefðu getað orðið ríkisstjórninni að falli, en það tókst að afstýra því. Støre boðar aðgerðir sem eiga að falla í kramið hjá kjósendum, til dæmis í heilbrigðismálum og orkumálum. Hann nefnir þar sérstaklega að stytta bið eftir heyrnartækjum, sem nú er átta mánuðir.