Læknafélag Íslands gerir athugasemdir við skýringar Landspítala á rekstrarvanda hans. Á sunnudag fjallaði fréttastofa um þriggja til fjögurra milljarða halla sem Landspítali stendur frammi fyrir. Í svörum frá spítalanum kemur fram að kostnaðarauka vegna kjarasamninga lækna sé aðeins mætt að takmörkuðu leyti, sem hafi mest áhrif á hallann. Eins og fjárlagafrumvarpið lítur út núna er viðbótarkostnaður vegna kjarasamninganna fyrir þetta ár og næsta um 5,5 milljarðar og launabætur frá fjármálaráðuneytinu 3,3 milljarðar. Eftirstandandi halli er því 2,2 milljarðar samkvæmt upplýsingum frá spítalanum. Læknafélagið segir að spítalinn hafi sagst þurfa að bera sjálfur 1,5 milljarða kostnað vegna kjarasamninganna en að öðru leyti séu þeir fjármagnaðir með launaendurmati, hagræðingarkröfu og skorti á viðbótarfjárveitingum. Samningurinn byggi á að bæta mönnun svo hægt verði að stoppa í mönnunargat sem jafngildir um það bil 80 stöðugildum á Landspítalanum, sem er leyst með yfirvinnu sem læknar fá greitt fyrir. Í fréttinni kemur fram að yfirvinna lækna vegi þungt, en vinnuvikan var stytt í samningunum. Landspítali tók saman tölur um heildarlaun lækna eftir að kjarasamningarnir tóku gildi. Þar kemur fram að sérnámslæknar hafi hækkað að meðaltali um 10% í heildarlaunum upp í rúmlega 1,5 milljón á mánuði - sem Læknafélagið segir að sé ekki utan ramma á venjulegum vinnumarkaði sérfræðinga í dag - sérstaklega þar sem læknar vinni kvöld, nætur og rauða daga. Þá hafa sérfræðilæknar hækkað um rúmlega 15% í launum, upp í tæplega 2,5 milljónir að meðaltali - sem Læknafélagið segir eðlilegt því þeir eigi að lágmarki að baki tólf ára háskólanám. Að auki hafa yfirlæknar hækkað um allt að 14% í launum, upp í 2,8 milljónir í heildarlaun á mánuði. Þá kom fram í fréttinni og tölum frá Landspítala að meðalvinnuvika lækna sé í kringum 40 stundir. Læknafélagið segir að fyrir það vinnuframlag kannist læknar ekki við þessar tölur hjá sjálfum sér eða sínu starfsfólki. Læknafélagið segir að eftir kjarabæturnar séu vísbendingar um að betur gangi að fá lækna til starfa á Íslandi en áður, en það virðist vera langur vegur þar til aðstæður sjúklinga verði viðunandi. Þá felist sóun í að um og yfir 100 sjúklingar bíði eftir hjúkrunarrými í legurýmum spítalans - sem eru margfalt dýrari en hjúkrunarrýmin.