Læknar vildu tilkynna ofbeldið en það má ekki án leyfis skjólstæðinga

Kona, sem í gær var dæmd fyrir að verða föður sínum að bana, beitti foreldra sína ofbeldi mánuðum saman. Læknum og heilbrigðisstarfsmönnum var óheimilt að tilkynna það til lögreglu. Formaður Læknafélagsins vill rýmri heimild til að tilkynna ofbeldismál. Beitti aldraða foreldra sína ítrekuðu ofbeldi Margrét Halla Hansdóttir Löf var dæmd í sextán ára fangelsi fyrir að verða áttræðum föður sínum að bana og fyrir að beita foreldra sína grófu ofbeldi mánuðum saman. Ofbeldið var bæði líkamlegt og andlegt, en Margrét neyddi foreldrana meðal annars til að hvísla eða eiga samskipti gegnum bréfaskriftir. Lögregla fann í það minnsta 600 orðsendingar á heimilinu. Skilaboð Margrétar til foreldranna voru oft mjög harðar og óvægnar og svör foreldranna mörg hver í bænar- og afsökunartón. Dæmi um orðsendingar Margrétar til foreldranna „EKKI segja mömmu hvert við erum að fara ... það kemur tíkinni ekki fokkings við !!!!!!“ „Og getur þú DRULLAÐ þér að fara eftir einu og öllu sem stendur á miðanum helvítið þitt !!!!!! „Mamma frekja og tillitslausa sjálfselska helvíti verður að vera komin heim á bílnum kl. hálf 1 !!!!“ „FOKKING HÁLFVITA FÍFL BÆÐI TVÖ !!!!“ Foreldrarnir höfðu báðir alvarlega áverka á eyrum, svokölluð „blómkálseyru“. Þetta eru sjaldgæfir áverkar sem tengjast helst bardagaíþróttum. Í upphafi gáfu þau aðrar skýringar á áverkunum, sem læknar töldu vafasamar, en gengust að lokum við því að dóttirin hefði veitt þá. Læknar sem foreldrarnir leituðu til í aðdraganda andlátsins vildu tilkynna ofbeldið til lögreglu, en máttu það ekki, þar sem foreldrarnir vildu það ekki. „Varðandi sjálfráða fullorðið fólk þá megum við ekki taka fram fyrir hendurnar á því með þeim hætti eins og staðan er í dag,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands. Lög um réttindi sjúklinga Trúnaðar- og þagnarskylda 12. grein Starfsmaður í heilbrigðisþjónustu skal gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem hann kemst að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. [...] 13. grein Þagnarskylda skv. 12. gr. nær ekki til atvika sem starfsmanni í heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum, t.d. ákvæðum barnaverndarlaga. Í þeim tilvikum ber starfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld. Samþykki sjúklings eða forráðamanns leysir starfsmann undan þagnarskyldu. [...] Mikilvægt að þolendur treysti sér til að leita læknisaðstoðar Fram kemur í dómnum að læknar og sérfræðingar lögðu hart að foreldrunum að leita til lögreglu. Þar segir meðal annars að faðirinn hafi ekki viljað kalla til lögreglu, því þá fengi hann að finna fyrir því. „Fórnarlömb heimilisofbeldis gætu veigrað sér við að leita sér aðstoðar heilbrigðiskerfisins ef að þau vita að læknar eða heilbrigðisstarfsfólk færi áfram til lögreglu þvert á þeirra óskir,“ segir Steinunn. „Það má ekkert koma í veg fyrir að fólk leiti sér aðstoðar þegar það er meitt eða slasað.“ Lög um heilbrigðisstarfsfólk Trúnaður og þagnarskylda 17. gr. Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. nemar og þeir sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn, skulu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar. Samþykki sjúklings eða forráðamanns, ef við á, leysir heilbrigðisstarfsmann undan þagnarskyldu. Þagnarskylda samkvæmt þessari grein nær ekki til atvika sem heilbrigðisstarfsmanni ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Í þeim tilvikum ber heilbrigðisstarfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld. [Enn fremur er heilbrigðisstarfsmanni heimilt, að beiðni sjúklings , að tilkynna til lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings. Í slíkum tilvikum er heimilt að miðla til lögreglu almennum persónuupplýsingum sjúklings, upplýsingum um áverka sjúklings ásamt öðrum upplýsingum sem varða ofbeldið og aðstæður sjúklingsins og eru taldar nauðsynlegar í þeim tilgangi að lögregla geti gert viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning við sjúkling.] [...] Vill rýmri heimildir fyrir fólk með heilabilun Steinunn segir þó brýnt að læknar fái aukna heimild til að tilkynna ofbeldi, sér í lagi ef skjólstæðingar eru háðir kvalara sínum. „Við búum við ákveðið lagalegt tómarúm þegar það kemur að eldra fólki sem er sannarlega öðrum háð vegna heilsubrests og þá oft vegna heilabilunar svo það er auðvitað í sérstaklega útsettri stöðu,“ segir Steinunn. „Ef heilbrigðisstarfsfólk eða aðrir verður varir við eða grunar sterklega ofbeldi eða aðra tegund misnotkunar – það getur verið vanræksla, fjárhagslegt ofbeldi og bara ýmsar birtingarmyndir – að þá höfum við í dag í raun og veru engan farveg til að bregðast við,“ segir Steinunn. „Og við verðum bara að fá einhverja úrlausn við þessu, að við höfum eitthvað regluverk til að geta hallað okkur upp við til þess að geta gripið þetta fólk.“