Óskarsverðlaunin sýnd á YouTube

Óskarsverðlaunin verða eingöngu aðgengileg á YouTube frá og með árinu 2029. Þetta tilkynnti Bandaríska kvikmyndaakademían fyrir skömmu. Samningurinn við YouTube þýðir að virtasta kvikmyndaverðlaunahátíð Hollywood verður í fyrsta sinn eingöngu sýnd í streymi. Hátíðin hefur síðustu áratugi verið sýnd á sjónvarpsstöðinni ABC en samningur hátíðarinnar við ABC rennur út árið 2028, eftir 100. Óskarsverðlaunaafhendinguna. „Við erum himinlifandi með að hefja margþætt alþjóðlegt samstarf við YouTube sem verður framtíðarheimili Óskarsverðlaunanna og heilsársdagskrár Akademíunnar,“ segja Bill Kramer, forstjóri Akademíunnar, og Lynette Howell Taylor, forseti Akademíunnar, í yfirlýsingu. Á Óskarsverðlaunahátíðinni er helstu afrekum ársins í kvikmyndagerð fagnað árlega. Áhorf á hátíðina hefur dregist saman síðustu ár, í fyrra horfðu 19,69 milljónir Bandaríkjamanna á hátíðina, sem var mesta áhorf sem hátíðin hafði fengið síðustu fimm ár, en fyrir einungis áratugi síðan náðu áhorfendatölurnar oft yfir 40 milljónir. Í fyrra var athöfninni streymt á streymisveitunni Hulu samhliða því sem hún var sýnd á sjónvarpsstöðinni ABC. Þetta skýrir aukningu í áhorfi.