Andrými: Ævinlega góð tíðindi þegar ný rödd fetar ótroðnar slóðir

Gauti Kristmannsson skrifar: Hvað er þetta? Spyr gagnrýnandi fyrir og raunar eftir lesturinn líka. Titillinn Andrými er margræður, getur hugsanlega vísað til veruleika sem er öfugur við þann sem við þekkjum, nokkrar sagnanna gætu alveg bent til þess, til að mynda sögurnar um læknana og skottulæknana þar sem mörgu er snúið á haus. En kannski er verið að hugsa meira í eðlisfræðilegum víddum, einhvers konar skammtafræðilegu frásagnarformi, enda leika eðlisfræði og eðlisfræðingar nokkuð stórt hlutverk í bókinni. Úr þessu verður ekki skorið nema höfundurinn ljóstri upp um það sem ég býst ekki við að hann geri. Fyrsta sagan heitir reyndar þessum sama titli, en hún getur engan veginn talist vera bókmenntaleg skilgreining, heldur virðist hún birta einhvers konar skammtafræðilegan hliðarheim, en slíkir heimar hafa notið töluverðra vinsælda í heimum bókmennta, leiklistar og kvikmynda undanfarin ár. Undirtitillinn, kviksögur, er líka mjög forvitnilegur og við fáum skilgreiningu á þeim á bókarkápu: „Sögur þessarar bókar kallar höfundur Kviksögur. Þær eru gjarnan óvæntar og skrítnar, sumar sannar og aðrar augljóslega lognar. Sögurnar spretta upp úr kviku tilverunnar, staða mannsins er hér sínálægt viðfangsefni, en eru annars síkvikar í eðli sínu og efni.“ Þetta er athyglisverð og skemmtilega orðuð skilgreining, og ég er viss um að gervigreindarlíkan hefði ekki getað fundið upp á henni. En á þessi skilgreining ekki alveg jafn vel við örsögur og meira að segja smásögur að einhverju leyti? Mér finnst margar sögurnar í þessari bók lúta nákvæmlega sömu lögmálum, ef svo skyldi kalla, og á ég þá einkum við hina óvæntu snúninga sem margar taka á sig í endann, en það er klassískt einkenni á mörgum ör- og smásögum. Bókin eða verkið öllu heldur er nokkuð stíf í forminu, engin saga er lengri en ein blaðsíða og þær eru alls 101 að tölu sýnist mér, ef sú síðasta, með því þungaða nafni „Genesis“ er talin með, en hún, eins og sú fyrsta, „Andrými“, fær ekki inni í efnisyfirlitinu, ekki einu sinni blaðsíðutölu. Allar, utan ein, eru titlaðar með einu orði og hverri þeirra, að „Andrými“ og „Genesis“ frátöldum, fylgir teikning eftir Elínu Eddu Þorsteinsdóttur. Neðan við allar, nema þær tvær áðurnefndu, er einhvers konar neðanmálsgrein sem minnir á spakmæli eða hnyttiyrði sem oft er ekki beinlínis tengt sögunni á sömu síðu. Það er þó ekki án undantekninga, í sögunni „Pendúll“ er fjallað meðal annars um Galíleó bæði í megin- og neðanmáli. Þessi hnyttiyrði, ef svo á að kalla, innihalda sjaldnast mjög áreiðanlegar upplýsingar, heldur ekki þegar um er að ræða nafngreint fólk, sem oftast eru frægir vísindamenn fyrri alda eins og Newton, Galíleó, Kópernikus, og Niels Bohr svo nokkrir séu nefndir. Ein neðanmálsgreinin gengur síðan að einhverju leyti aftur; undir sögunni „Tvískinnungur“, um hvolfþak dómkirkjunnar í Flórens, er neðanmálsgreinin „Fallisti“ og hljóðar svo: „Mér gekk illa í skóla og hætti snemma. Ég fallprófa nú lyftur og þyngdaraflið veitir mér starfsöryggi. Reynist ekki vera kraftur heldur hröðun og afleiðing þess að massi jarðar bjagar tímarúmið.“ Þessi fyrstu persónu sögurödd birtist svo aftur, mætti ætla, í sögunni „Fall“ þar sem nánar er fjallað um hana og Galíleó raunar líka. Þar undir er svo svo gömul anekdóta um Tycho Brahe, afskorna nefið hans og þvagblöðruna sem var við það að springa. Þessar hérnefndar sögur og neðanmálsgreinar kjarna svolítið söguhetjurnar, eða öllu heldur andhetjurnar í bókinni, en margar þeirra eru vægast sagt á rangri hillu og virðast margar eiga það sameiginlegt að hafa valið enn fáfarnari veg en skáldið Robert Frost gerði á sínum tíma, og hreinlega endað á ýmsum blindgötum lífsins. Þessar frásagnir allar eru þrungnar léttri og stundum dálítið kvikindislegri íroníu gagnvart andhetjunum, sem segja gjarnan frá í fyrstu persónu og oft þannig að þær eru sannfærðar um að hafa valið rétt, en enda á að sýna fram á hið þveröfuga. Sem dæmi má nefna næstsíðustu söguna, „Starfslok“ þar sem sögumaðurinn kemst að því í viðtali fyrir fréttabréf fyrirtækisins að hann hefur í raun ekki gert neitt öll þessi fjörutíu ár og að allur „vinnutími minn hefur verið samansafn dauðra stunda annarra starfsmanna. Spyrillinn horfir einkennilega á mig og ég bíð spenntur næstu spurningar.“ Nákvæmlega þess konar blinda virðist hrjá marga andhetjuna í bókinni og verður það nokkuð fyrirsjáanlegt þegar líða tekur á lesturinn. Hnyttiyrðin og spakmælin áðurnefndu eru misvel heppnuð, sum jaðra við að vera pabbabrandarar eins og þau um „sæðisforingjann“ í Hjálpræðishernum og „eldgleypinn“ í spurningu frá Hindenburg. Orðaleikir leika líka hlutverk í samningu þessara athugasemda eins og sjá má til dæmis í tilfellinu um „Heimspeki“ þar sem ökumaður í bílslysi er upp Kant með stóru kái eða þá „Vítiskvalir“ þar sem valkvíði markmanns í fótbolta er orðaður. Að þessu sögðu eru mörg önnur ágætlega heppnuð og til þess fallin kitla aðeins brostaugarnar og þessi tilraun með formið er eftir sem áður forvitnileg. Stíll verksins er tiltölulega einfaldur, það er mikið notast við aðalsetningar og þótt sumar lýsingar séu nánast súrrealískar á einhvern hátt er prósinn allltaf mjög blátt áfram og er það bæði kostur og galli; það skapar andstæðuspennu í frásögninni, en verður dálítið eintóna eftir því sem á líður í lestrinum. Eins og áður greindi fjalla sögurnar oft um persónur sem ekki hafa fundið sína réttu hillu, jafnvel þótt þær trúi því sjálfar, og einnig snúast margar sögurnar um lækna og lækningar, ekki alltaf hefðbundnar, og loks fá eðlisfræðingar af ýmsu tagi töluverða athygli og gefa verkinu kannski dálítið kosmíska vídd ef svo mætti til orða taka. Það er þó alls ekki verið að kenna eitt eða neitt, nema síður væri, það er gert góðlátlegt grín að öllu saman með léttri íroníu og tungu í kinn eins og sagt er á ensku. Margar sögurnar eru býsna skemmtilegar og aðrar kannski síður, en það verður hæla höfundi fyrir góða formvitund sem studd er af einkennilega sérkennilegum sögupersónum sem oft mætti flokka sem sérvitringa og mörgum Íslendingum þykir gaman að lesa um og henda gaman að. Og þótt þessar kviksögur skeri sig kannski ekki eins mikið úr forminu frá öðrum ör- og smásögum má vel segja að hér sé óneitanlega komin ný rödd fram á sviðið, rödd sem leitar fyrir sér á öðrum slóðum en þær sem fyrir eru. Og það eru ævinlega góð tíðindi. Gauti Kristmannsson, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, rýnir í Andrými eftir Eirík Jónsson sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Gauti Kristmannsson flutti pistil sinn í Víðsjá sem finna má hér í spilara RÚV. Hann er prófessor í þýðingafræði við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Hann hefur fjallað um samtímabókmenntir í Víðsjá síðustu tvo áratugi.