Saka rússneska landamæraverði um að fara inn á eistneskt landsvæði

Eistneska innanríkisráðuneytið sakaði þrjá rússneska landamæraverði um að hafa farið yfir landamærin milli Rússlands og Eistlands í leyfisleysi á miðvikudaginn. Eistlendingar segja Rússana hafa farið á svifnökkva á Narva-fljótinu milli ríkjanna og hafa stigið á land á brimbrjóti sem tilheyrir þeim báðum. Þeir hafi gengið yfir á eistneska hluta brimbrjótsins en síðan stigið aftur um borð í svifnökkvann og haldið aftur yfir á rússneska hluta fljótsins. Eistneski innanríkisráðherrann Igor Taro sagði óljóst hvað rússnesku landamæravörðunum hafi gengið til en sagðist ekki telja þjóðaröryggi Eistlands ógnað vegna atviksins. Engu að síður hafi Eistlendingar aukið eftirlit sitt við landamærin í kjölfar þess. „Þeir fóru inn á okkar landsvæði,“ sagði Taro í viðtali við eistnesku fréttastöðina ETV. „Eitt sem við höfum áhyggjur af við rússnesku landamæragæsluna er að starfsmenn hennar hafa verið ansi mishæfir síðustu árin. Þeir hafa, af skiljanlegum ástæðum, ekki lengur fast starfslið og hafa verið að kalla til fólk úr öðrum landshlutum. Þetta er orðið reglubundið vandamál.“ Taro sagði landamæraverðina hafa verið farna aftur inn í Rússland áður en hægt var að bregðast við atvikinu. Ekkert lægi fyrir um hvort um hafi verið að ræða vísvitandi ögrun.