Ríkisstjórn Bretlands veitti rússneska athafnamanninum Roman Abramovítsj lokaviðvörun á miðvikudag um að hann yrði að greiða Úkraínu 2,5 milljarða punda sem hann fékk fyrir að selja enska knattspyrnufélagið Chelsea FC fyrir þremur árum. Abramovítsj seldi Chelsea vegna þrýstings frá breskum stjórnvöldum árið 2022 eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Ríkisstjórn Bretlands gaf honum leyfi til að selja knattspyrnufélagið með því skilyrði að söluágóðanum yrði ráðstafað í þágu fórnarlamba innrásarinnar. Ágóðinn var lagður inn á bankareikning undir stjórn Fordstam, fyrirtækis Abramovítsj. Peningarnir hafa hins vegar enn ekki verið snertir þar sem ágreiningur er um hvort Abramovítsj beri að ráðstafa fénu alfarið innan Úkraínu eða hvort hann megi einnig ráðstafa því annars staðar. Abramovítsj hefur fært rök fyrir því að nýta beri peningana í þágu allra fórnarlamba stríðsins, líka í Rússlandi. Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands greindi neðri málstofu breska þingsins frá því á miðvikudag að til stæði að nýta peningana í þágu nýrra mannúðarsamtaka fyrir Úkraínu og að Abramovítsj hefði fengið síðasta tækifæri sitt til að heimila millifærslu fjárins. „Klukkan tifar fyrir Roman Abramovítsj að heiðra skuldbindinguna sem hann gerði þegar Chelsea FC var selt og millifæra 2,5 milljarða punda yfir á mannúðarstofnun fyrir Úkraínu,“ sagði Starmer. „Þessi ríkisstjórn er reiðubúin til að láta framfylgja henni fyrir rétti svo að hver einasti eyrir nái til þeirra sem hafa misst líf sitt vegna hins ólöglega stríðs Pútíns.“ Samkvæmt frétt The Guardian hefur Abramovítsj þriggja mánaða frest til að láta féð af hendi rakna áður en ríkisstjórnin fer með málið fyrir rétt.