Salvini sýknaður af ákæru fyrir mannrán

Hæstiréttur Ítalíu staðfesti á miðvikudag sýknudóm í máli gegn Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu, sem snerist um ákæru á hendur honum fyrir mannrán. Salvini var ákærður eftir að hann lét kyrrsetja bát með um 100 flóttamenn innanborðs í nærri þrjár vikur þegar hann var innanríkisráðherra árið 2019. Dómarar skipuðu að endingu að farþegunum skyldi hleypt í land. Saksóknarar í málinu færðu rök fyrir því að með því að halda fólkinu föngnu um borð hefði Salvini gerst sekur um mannrán. Dómstóll í Palermó á Sikiley sýknaði Salvini af ákærunni í fyrra en saksóknarar höfðu farið fram á sex ára fangelsisdóm gegn honum. „Endanleg sýkna Matteo Salvini er gleðifrétt og staðfestir einfalda og nauðsynlega meginreglu: Ráðherra sem ver landamæri Ítalíu er ekki að fremja glæp, heldur sinna skyldu sinni,“ skrifaði Giorgia Meloni forsætisráðherra um niðurstöðuna á Facebook-síðu sinni. Oscar Camps, stofnandi samtakanna, Open Arms, sem áttu bátinn sem Salvini stöðvaði, harmaði niðurstöðuna og sagði hana pólitíska ákvörðun. „Þetta jafngildir löghelgun á beitingu mannlegrar þjáningar sem pólitísks verkfæris.“