KSÍ hefði fengið 1,3 milljarð króna fyrir HM

Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA hefur tilkynnt um verðlaunafé á heimsmeistaramóti karla í fótbolta árið 2026. Verðlaunafé er tvöfalt hærra en á síðasta móti. Liðum var fjölgað úr 32 í 48. Ef Ísland hefði komist á mótið hefði Knattspyrnusamband Íslands fengið 1,32 milljarða króna. Í ár eru alls 727 milljónir sem fara til þátttökuþjóða og hækkar verðlaunaféð eftir því sem að lið komast lengra. Svona er verðlaunaféð, byggt á árangri: Sigurvegarar: 6,32 milljarðar króna ($50,000,000) 2. sæti: 4,17 milljarðar króna ($33,000,000) 3. sæti: 3,67 milljarðar króna ($29,000,000) 4. sæti: 3,41 milljarðar króna ($27,000,000) 5.–8. sæti: 2,40 milljarðar króna ($19,000,000) 9.–16. sæti: 1,90 milljarðar króna ($15,000,000) 17.–32. sæti: 1,39 milljarðar króna ($11,000,000) 33.–48. sæti: 1,14 milljarðar króna ($9,000,000) Liðin á 33. til 48. sæti detta út í riðlakeppni. Öll lið fá þar að auki 189,6 milljónir króna til að standa undir ferða- og dvalarkostnaði. Því hefði KSÍ fengið 1,32 milljarð króna fyrir það eitt að tryggja sig inn á mótið. Liðið lenti í 3. sæti í sínum riðli í undankeppni eftir tap í úrslitaleik um umspilssæti gegn Úkraínu. Hvernig er fjárhagsstaðan hjá KSÍ? KSÍ birti fjárhagsstöðu sína í upphafi 2025. Þá kom í ljós að sambandið var rekið með tæplega 15 milljón króna hagnaði árið 2024. Samkvæmt áætlun var gert ráð fyrir 37 milljón króna hagnaði árið 2025. Heildarkostnaður sambandsins var 1,968 milljarður króna árið 2024. Hann var nálægt þeirri upphæð árið 2018 en hafði svo lækkað árin 2019 til 2022 þegar hann var á bilinu 1,4 til 1,7 milljarður króna. Hvernig var þetta á HM 2018? Ísland fékk 1,2 milljarða króna fyrir þátttöku á HM 2018 í Rússlandi. Sambandið gaf út að þátttökukostnaður hefði verið 903 milljónir. Þar af eru til að mynda bónusgreiðslur við leikmenn og allur dvalar- og ferðakostnaður.