Rúm 70 prósent ánægð með að taka ekki þátt í Eurovision

Ákvörðun framkvæmdastjórnar RÚV að taka ekki þátt í Eurovision í ár fellur í kramið hjá almenningi, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu. 71 prósent segjast ánægð með ákvörðunina, þar af 57 prósent mjög ánægð. Sautján prósent segjast óánægð, þar af ellefu prósent mjög óánægð. Tólf prósent völdu valkostinn „í meðallagi“. Mikill meirihluti er ánægður með ákvörðunina óháð kyni, aldri, búsetu, menntun og heimilistekjum. Konur eru ánægðari með ákvörðunina en karlar, eldra fólkið er óánægðara en það yngra og fólk með meiri menntun er ánægðara en það sem er með minni menntun. Það eru aðeins kjósendur Miðflokksins sem lýsa meiri óánægju en ánægju með ákvörðunina. 35 prósent þeirra segjast ánægð en 46 prósent eru óánægð með að RÚV verði ekki með. Fyrir utan Miðflokkinn eru Sjálfstæðismenn þeir einu þar sem innan við helmingur lýsir ánægju með ákvörðunina, þó eru fleiri stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins ánægðir (44%) en óánægðir (36%) með ákvörðunina. Meirihluti þeirra sem styðja alla aðra flokka lýsir ánægju sinni með ákvörðunina, frá 64 prósentum Framsóknarmanna upp í 94 prósent Vinstri grænna. Yfir 90 prósent þeirra sem styðja Pírata, Samfylkinguna, Sósíalistaflokkinn og Vinstri græn eru ánægð með ákvörðunina. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu á netinu 11. til 17. desember. 2.132 svöruðu.