Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgaði um 4,2 prósent milli ára og eru orðnir 83.939 talsins. Þeim fjölgaði um 3.393 frá 1. desember í fyrra til sama tíma í ár. Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sem búa á Íslandi um 1.956 eða 0,6 prósent. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Þjóðskrár. Íslenskir ríkisborgarar eru 79,6 prósent þeirra sem búa á Íslandi. Þetta er í fyrsta sinn sem hlutfallið fer undir 80 prósent. Pólverjar eru næstfjölmennasti þjóðahópurinn sem býr hér. 6,5 prósent landsmanna hafa pólskan ríkisborgararétt. Því næst koma Litháar sem eru 1,5 prósent íbúa. Fólk á ferli í miðbæ Reykjavíkur.RÚV / Ragnar Visage