Tonnin í Ekvador sem verða að grömmum í Reykjavík

Fyrir sex árum var flutt frétt í kvöldfréttum RÚV þar sem sagt var að kókaín væri að flæða yfir landið. Tölurnar sem nefndar voru í fréttinni blikna hins vegar í samanburði við það magn sem yfirvöld hafa lagt hald á þetta ár sem nú er að líða. Yfir hundrað kíló á Suðurnesjum Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum hefur hún lagt hald á nærri áttatíu kíló af kókaíni og tæplega 18 lítra af fljótandi kókaíni - en úr því síðarnefnda væri líklega hægt að framleiða 21,6 kíló. Það má því leiða líkum að því að samanlagt hafi Suðurnesjalögreglan lagt hald á hundrað kíló af kókaíni. Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslunni hefur hún lagt hald á níu kíló af kókaíni og níu lítra af kókaínvökva í Norrænu á Seyðisfirði. Úr kókaínvökvanum væri líklega hægt að framleiða sex kíló af kókaíni. Þetta eru þrjú aðskilin mál, dómar hafa þegar fallið í tveimur en það þriðja er enn til rannsóknar. Tvö mál sem komast á lista yfir þau stærstu í Íslandssögunni Spegillinn skoðaði líka þá dóma sem hafa fallið í héraðsdómi fyrir kókaínsmygl á þessu ári. Þetta eru yfir þrjátíu mál og heildarmagnið í þeim er um áttatíu kíló. Tvö skera sig úr; í öðru þeirra var ungur, erlendur karlmaður handtekinn með þrettán kíló af kókaíni þegar hann kom með flugi frá belgísku borginni Brussel í apríl. Efnið, sem var falið í ferðatösku, var sterkt; 83 til 87 prósent en styrkleiki kókaíns sem selt er á götunni hér á landi er oftast á bilinu sextíu til sjötíu prósent. Hann hlaut sex og hálfs árs dóm þrátt fyrir að hafa hvorki fjármagnað né skipulagt innflutninginn, heldur eingöngu flutt efnin hingað. Hitt málið kom upp í maí þegar tveir breskir ríkisborgarar voru handteknir með tólf kíló af sterku kókaíni þegar þeir komu til landsins frá París. Annar var dæmdur í sex ára fangelsi en hinn hlaut fjögurra ára dóm. Fá íslensk burðardýr Þessi tvö dæmi eru lýsandi fyrir fíkniefnainnflutning til landsins - Í nánast öllum þeim málum sem komið hafa til kasta dómstóla á árinu eru burðardýrin erlendir ríkisborgarar og samkvæmt upplýsingum Spegilsins hafa eingöngu tveir íslenskir ríkisborgarar verið handteknir, grunaðir um fíkniefnasmygl, síðastliðna tólf mánuði. Það heyrir orðið til undantekninga að lögreglan fái inn á sitt borð íslensk burðardýr. Reglan er yfirleitt sú að burðardýrin fá efnið afhent í Amsterdam en þangað kemur það frá Spáni sem hefur um árabil verið eitt helsta útibú fíkniefnasmygls á Íslandi. Frá Amsterdam er síðan reynt að finna hentugar ferðir til landsins; oftast með lággjaldaflugfélögum og helst þeim sem ekki skila farþegalistum - sem enn eru nokkur. Þetta geta verið Alicante, París, Mílanó, Kaupmannahöfn, Hamborg, Frankfurt, Berlín og Vín auk þess sem færst hefur vöxt að kókaíni sé smyglað frá Barselóna. Samkvæmt upplýsingum Spegilsins er eftir nokkru að slægjast í sölu kókaíns á Íslandi, því efnið er nokkuð dýrt miðað við götuverð í Evrópu. Kókaín-bylgja skellur á Evrópu Ísland er ekki eina landið í Evópu sem finnur fyrir aukinni neyslu kókaíns; í nýlegri skýrslu EUDA, lyfjastofnunar Evrópu, kom fram að árið 2023 hefði verið það sjöunda í röð þar sem lagt hefði verið hald á metmagn kókaíns og Belgía, Spánn og Holland voru sem fyrr í lykilhlutverki í dreifingu kókaíns um Evrópu. Ólíkt mörgum öðrum fíkniefnum, sem hægt er að búa til á rannsóknarstofum eða jafnvel rækta í köldum löndum eins og Íslandi, er kókaín eingöngu hægt að búa til úr kókaplöntunni; hana er að finna í löndum í Suður-Ameríku; Kólumbíu, Perú og Bolívíu sem eru þau þrjú lönd sem bera uppi framleiðslu kókaíns. Lögreglan á Íslandi hefur lengi vitað að Íslendingar hafi tengsl við glæpahópa í Suður-Ameríku. Stríðið gegn fentanyl opnar dyr kókaínbaróna New York Times birti í byrjun mánaðarins athyglisverða grein þar sem skýringin á meira flæði kókaíns til Evrópu og Bandaríkjanna er sögð ofuráhersla ráðamanna í Washington á fentanyl-faraldurinn sem dregið hefur þúsundir til dauða vestanhafs - bara árið 2023 dóu 73 þúsund úr ofneyslu fentanyls í Bandaríkjunum en til samanburðar létust sex þúsund úr ofneyslu þar sem kókaín kom við sögu. Fentanyl er fyrst og fremst framleitt af alræmdum glæpahópum í Mexíkó með efnum sem koma frá Kína og Donald Trump hefur í seinni stjórnartíð sinni tekið upp mjög herskáa stefnu. Bara í vikunni skrifaði hann undir forsetatilskipun um að fentanyl yrði skilgreint sem gjöreyðingarvopn. New York Times segir í sinni grein að fókus Bandaríkjastjórnar á Fentanyl hafi orðið til þess að stórar glufur opnuðust fyrir kókaín-baróna í Suður-Ameríku Og Ekvador, sem þótti fyrirmyndarríki í Suður-Ameríku fyrir aðeins fimm árum, er nú orðið að hraðbraut fyrir kókaínsmyglara frá Kólumbíu og Perú með tilheyrandi ofbeldi og manndrápum. Daniel Noboa, forseti Ekvador, hefur hvatt stjórnvöld í Washington og Evrópuríki til að taka þátt í stríðinu gegn glæpahópum sem hann líkti við hryðjuverkasamtök. Galapagos-eyjar nýttar sem bensínstöð New York Times ræddi við Mike Fitzpatrik, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Ekvador, sem sagðist hafa gert stjórnvöldum í Washington viðvart um þessa ógnvænlega þróun fyrir þremur árum en verið spurður; Hvar er fentanylið? „Ekvador hefur ekkert fentanyl að selja; allt snýst þar um kókaín,“ hefur New York Times eftir Fitzpatrik. Talið er að sjötíu prósent af öllu kókaíni heimsins fari um Ekvador - 65 prósent af því fer til Evrópu, afgangurinn til Bandaríkjanna. Þetta eru tvær klíkur sem berjast um yfirráðin og eiga í samstarfi við fíkniefnasmyglara frá Kólumbíu, Mexíkó og Albaníu. Í umfjöllun breska blaðsins The Times í byrjun vikunnar kom fram að sjómenn sem geri út frá hinum sögulegu Galapagos-eyjum hafi töluvert upp úr því að sjá kókaínsmyglurum fyrir eldsneyti og gera þeim þannig kleift að sigla með efnið til Mið-Ameríku, þaðan sem því er smyglað til Vesturlanda. Galapagos-eyjar eru hálfgerð bensínstöð fyrir fíkniefnasmyglara, hefur The Times eftir fyrrverandi starfsmanni heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna. Kókaín Íslendinga líklega frá Ekvador Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er nú rekið mál þar sem ungt fólk í Garðabæ ásamt karlmanni á sextugsaldri eru ákærð fyrir að flytja inn fimm komma sex kíló af kókaíni í BMW-bifreið. Bílinn var sendur tómur til Lithánes en kom þaðan aftur til Íslands með flutningaskipi eftir að kókaín hafði verið falið í drifskafti og grindarbitum - það þurfti mjög ítarlega leit lögreglu til að finna efnið. En þótt fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í BMW-bílnum í Litháen á það uppruna sinn hjá þaulskipulögðum glæpasamtökum í Suður-Ameríku sem líkt hefur verið við hryðjuverkasamtök; það er jafnvel ekki óhugsandi að það hafi farið sjóleiðina frá Ekvador, einu hættulegasta landi Suður-Ameríku nú á dögum.