Traktorar aftur mættir í Evrópuhverfið í Brussel

Hávaðasamar flautur á stórum traktorum spilltu nætursvefni íbúa víða í Brussel í nótt. Þær voru þeyttar til að vekja athygli á mótmælaaðgerðum bænda sem streymt hafa til borgarinnar í tengslum við leiðtogafund Evrópusambandsins sem nú stendur yfir í Evrópuhverfinu í Brussel. Búist er við um tíu þúsund mótmælendum, sem vilja með aðgerðum sínum lýsa andstöðu við fríverslunarsamning sem Evrópusambandið hefur gert við MERCOSUR ríkin í Suður-Ameríku. Eftir viðræður sem staðið hafa í meira en tvo áratugi, er samningurinn nánast frágenginn. Hagsmunaaðilar í landbúnaði óttast hins vegar innflutning á ódýrum vörum frá ríkjum á borð við Brasilíu og Argentínu, og hafa bent að evrópskir framleiðendur standi höllum fæti vegna innflutnings frá ríkjum þar sem regluverk er ekki eins strangt og í Evrópu. Þessum áhyggjum hefur að einhverju leyti verið svarað með samkomulagi sem gert var fyrir nokkrum dögum um tvíhliða verndaraðgerðir; ákvæði sem myndi leyfa Evrópusambandinu að takmarka innflutning á landbúnaðarvörum, ef fyrir lægi að hann myndi valda alvarlegum skaða í þessari grein í ríkjum Evrópu. Til stóð að Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins myndi fara til Brasilíu um helgina að skrifa undir samninginn. Málið verður hins vegar rætt á leiðtogafundi Evrópusambandsins sem hófst í morgun og ekki er ljóst hver niðurstaðan þar verður