Stofna skaðabótanefnd vegna innrásarstríðs Rússa

Ísland er á meðal 35 ríkja sem skrifuðu undir samning um stofnun skaðabótanefndar vegna stríðsins í Úkraínu. Nefndin úrskurðar um fjárhæð bóta, þegar hafa rúmlega áttatíu þúsund kröfur verið skrásettar í tjónaskrána. Það var í Reykjavík á leiðtogafundi Evrópuráðsins í maí 2023 sem leiðtogar 44 ríkja samþykktu að stofnuð yrði alþjóðleg tjónaskrá sem tæki til eignaskemmda, manntjóns og alvarlegra meiðsla vegna stríðs Rússlands í Úkraínu. Kerfið samanstendur af sérstökum dómstóli, sem dregur til ábyrgðar háttsetta leiðtoga sem framið hafa glæpi gegn friði gagnvart Úkraínu, tjónaskrá sem tók til starfa í apríl og nú skaðabótanefnd. Þegar hafa rúmlega áttatíu þúsund kröfur verið skrásettar í tjónaskrána og fær skaðabótanefndin það hlutverk að úrskurða um fjárhæð bóta. Samningurinn um stofnun skaðabótanefndar var undirritaður í Haag í Hollandi á þriðjudag. Í honum er kveðið á um að Rússar beri lagalega ábyrgð á innrásinni og beri að greiða skaðabætur fyrir það tjón sem þeir hafa valdið vegna ólögmæts innrásarstríðs þeirra í Úkraínu. Skaðabótanefndin fær það hlutverk að úrskurða um fjárhæð bóta, þegar hafa rúmlega áttatíu þúsund kröfur verið skrásettar í tjónaskrána. Skaðabótanefndin verður sjálfstæð eining á vettvangi Evrópuráðsins, en ríki utan þess geta einnig gerst aðilar að nefndinni. Áætlað er að hún verði að fullu starfhæf árið 2029. „Með þessu undirstrikar Ísland enn á ný nauðsyn þess að standa vörð um alþjóðalög og standa þétt við bakið á Úkraínu. Rússar verða að bera ábyrgð á og bæta það gríðarlega tjón sem þeir hafa valdið úkraínsku þjóðinni. Sá mikli fjöldi ríkja sem undirritaði samninginn í dag er til marks um þann víðtæka stuðning sem Úkraína nýtur,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.