Það skiptir ekki máli hve margir laxar sleppa, einn er nóg, segir deildarstjóri hjá MAST. Landeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum tilkynnti að laxar hefðu sloppið úr eldisstöð þeirra í Viðlagafjöru í fyrradag. Verið var að flytja fisk á milli tanka þegar fiskarnir sluppu, að sögn stjórnenda fyrirtækisins. MAST rannsakar hvað fór úrskeiðis. „Það er dæling á milli tanka. Það er líklegt að það hafi farið of hratt - eða sú dæling hafi gengið of hratt fyrir sig,“ segir Karl Steinar Óskarsson er deildarstjóri fiskeldisdeildar MAST. Fyrirtækið hefur gefið MAST grófa lýsingu á því sem gerðist. „Það er veikleiki í sigti í tankinum sem við erum að skoða og við erum að skoða þessa vörn sem á að vera í fráveitunni, hvort hún hafi gefið eftir eða eitthvað hafi gerst þar,“ bætir hann við. „Við munum varpa ljósi á þetta í skýrslu sem við gefum út þegar við höfum rannsakað málið til hlítar með nákvæma lýsingu á því hvað gerðist.“ Er ásættanlegt að svona strokvarnir klikki? „Það er aldrei ásættanlegt að fiskur geti strokið. Hann á ekki að strjúka. Við lítum alltaf á það mjög alvarlegum augum.“ Ekki náðist í Laxey við vinnslu fréttarinnar. Karl Steinar segir að tuttugu laxar hafi fundist dauðir í flæðarmálinu og sést hafi til tveggja lifandi laxa í sjónum. MAST segir ekki hægt að útiloka að þar séu fleiri. Laxey virkjaði strax viðbragðsáætlun, setti út net og kallaði til kafara og neðansjávardróna. Laxarnir líklega laskaðir Sviðstjóri hjá Fiskistofu segir engar líkur á að bera fari á fiskum í ám á þessum árstíma, það gerist í fyrsta lagi næsta sumar og Fiskistofa vakti það. Líkur séu á að fiskarnir sem sluppu hafi farið í gegnum einhvers konar ristar því þeir voru talsvert laskaðir. Þá segir Fiskistofa að fyrirtækið hafi ekki svarað því afdráttarlaust hvort fiskar séu enn í affalli á stöðinni, verið sé að kanna það og það sé net fyrir affallinu. Fimm strok á rúmu ári Rúmlega 140 þúsund laxar voru í tankinum. „Upplýsingar sem við höfum eru um að það hafi verið lítið magn sem fór þarna út en við erum ekki með tölu endanlega á því, fáum hana vonandi seinna í dag. En það skiptir engu máli hvort það eru tveir eða tíu, það er nóg að einn sleppi, það er nógu slæmt.“ „Á rúmu ári hafa verið fimm strok úr landeldisstöðvum hér á Íslandi. Þau eru öll með mismunandi hætti en oftast er þetta búnaður eða mannleg mistök.“