Útgjöld Miðflokksins á síðasta ári voru 133 milljónum króna hærri en tekjur flokksins. Skuldir flokksins voru 26 milljónum króna hærri en eignir í árslok. Þetta kemur fram í ársreikningi sem flokkurinn skilaði inn til Ríkisendurskoðunar og var birtur í síðustu viku. 205 milljóna króna útgjöld Tekjur flokksins námu 69 milljónum króna á síðasta ári en útgjöldin hljóðuðu upp á 205 milljónir. Þar munaði mestu um þingkosningar undir lok síðasta árs. Samkvæmt ársreikningnum kostuðu þær flokkinn 140 milljónir króna. Það er mun meira en skráður kostnaður vegna kosningabaráttunnar samkvæmt ársreikningum annarra flokka. Flokkur fólksins kostaði 70 milljónum til kosningabaráttunnar samkvæmt ársreikningi og Viðreisn 67 milljónum . Samkvæmt ársreikningi Vinstri grænna kostaði kosningabarátta flokksins 35 milljónir. Vinstri græn rétt undir núlli Vinstri græn komust næst núllinu af þeim flokkum sem hafa skilað ársreikningi sem er orðinn aðgengilegur á vef Ríkisendurskoðunar. 1,2 milljóna króna halli var á rekstri Vinstri grænna á síðasta ári fyrir fjármagnsliði. Tekjurnar námu 117 milljónum og útgjöldin 121 milljón. Flokkurinn féll af þingi í síðustu kosningum og fékk ekki nægjanlegt fylgi til að fá áframhaldandi greiðslur úr ríkissjóði. Eigið fé Vinstri grænna nam 50 milljónum um áramót. Nokkrir ársreikningar óbirtir Ekki er búið að birta ársreikninga Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Sósíalistaflokks Íslands, Pírata og Framsóknarflokksins.