Soffía Auður Birgisdóttir skrifar: Það er best að taka fram strax hér í upphafi að hinn sögulegi tvíleikur Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Hamingja þessa heims (2023) og Vegur allrar veraldar (2025) er, að mati þeirrar sem hér talar, magnað verk og merkilegt í samhengi íslenskra samtímabókmennta. Í þessum tveimur skáldsögum vefur Sigríður saman sögu um samtímamann okkar, gallagripinn Eyjólf Úlfsson, fyrrverandi prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og frásögn af litríku og lagskiptu samfélagi fimmtándu aldar þar sem þráðurinn spinnst um Ólöfu ríku Loftsdóttur og þau átök sem hlutust af hrottalegu morði á eiginmanni hennar Birni Þorleifssyni, hirðstjóra konungs. Þetta er marglaga og flókinn söguheimur en Sigríður hefur afburða góð tök á honum, hún stýrir öllum þráðum frásagnarinnar fagmannlega og spinnur af miklum hagleik. Hér gefst ekki tími til að kafa djúpt í söguheiminn, bara fullyrt að lesendur eiga gott í vændum að rekja sig eftir þráðunum og uppgötva hvernig þeir koma saman og mynda fjölbreytileg mynstur. Það myndmál vefnaðar sem hér hefur verið gripið til er ekki helber klisja, minna má á að orðin texti og vefur eiga sömu orðsifjalegu rætur; hvort tveggja leitt af orðinu textúra úr latínu og þýðir að vefa eða fella saman. Það er því engin tilviljun að ein aðalpersóna seinni bókarinnar, Sunneva, er afburða handavinnu- og saumakona sem í bókarlok situr við vefstól og vinnur þar refil mikinn sem með myndmáli sínu dregur fram helstu þætti þeirra atburða sem höfundur hefur fjallað um í ritmálinu. Vegur allrar veraldar er kynnt sem sjálfstætt framhald af fyrri skáldsögunni, Hamingju þessa heims , sem merkir yfirleitt að hægt sé að lesa bókina án þess að þekkja þá fyrri. Ég hygg þó að þeir sem lesa skáldsögurnar báðar fái mest fyrir sinn snúð því hér eru margar af sömu aðalpersónum á ferð og saman mynda bækurnar tvær samfelldar frásagnarfléttur, hvora á sínu tímasviði. Hér verður athyglinni beint að seinni bókinni en hlustendum bent á umsögn um þá fyrri sem Sölvi Halldórsson flutti í Víðsjá haustið 2023. Vegur allrar veraldar hefst haustið 1479 þegar kona kemur að Reynistaðarklaustri eftir reið norður yfir Kjöl og teymir hest undir gömlum og fársjúkum manni. Þar eru þau komin, Sunneva saumakona og Sveinn döggskór, hirðskáld Ólafar ríku, en frásagnir hans fá lesendur af skinnhandritum sem komast fyrir tilviljun í hendur Eyjólfs sagnfræðings eftir ýmsum leiðum. Sveini döggskó er ekki hugað líf en Ólöfu ríku, sem hann hefur þjónað dyggilega alla ævi, er mikið í mun að hann skrásetji sannleikann um atburðina í Rifi þegar Englendingar drápu Björn, áður en hann deyr. „En með því að skáldið var rænulaust og málstola“, eins og segir í inngangskaflanum. „þá tók abbadísin til þess ráðs að setja fylgdarkonu hans til að segja frá enda hefði hún einnig verið í þjónustu Ólafar og séð og heyrt margt af því sem drifið hefði á daga hennar, engu síður en skáldið“ (12). En Sunneva er hvorki læs né skrifandi og því fær ein af ungnunnunum, Steinvör Guðólfsdóttir, það hlutverk að skrá frásögn hennar á skinn. Þetta er skemmtilegur snúningur á frásögninni; ómenntuð alþýðukona tekur við af menntaða hirðskáldinu sem sögumaður og við það breytist sjónarhornið allverulega – enda „var það trúa móður Agnesar [abbadísarinnar] að konur sæju og vitnuðu um aðra hluti en karlar, og engu ómerkari“ – eins og segir í inngangi. Vegur allar veraldar vegar hefur undirtitilinn Skálkasaga og mig langar að staldra aðeins við þann merkimiða. Minna má á að fyrri sagan, Hamingja þessa heims , ber undirtitilinn Riddarasaga og er þar vísað til frásagnarinnar sem rís upp af síðum skinnhandritanna sem Eyjólfur fann í útlegð sinni í gömlum kistum á Staðarfelli. Undirtitillinn vísar einnig til þess að eiginmaður Ólafar ríku, Björn Þorleifsson hlaut riddaratign af Kristjáni konungi fyrsta árið 1457 en átök sögunnar snúast að mestu um þessi valdamiklu og forríku hjón. Með undirtitlinum skálkasaga vísar höfundur til ákveðinnar tegundar evrópskra sagna sem komu fyrst fram á Spáni á 16. öld – novela picaresca . Slíkar sögur eru viðburðaríkar og aðalpersónan, la picaro eða skálkurinn , segir sjálfur frá. Persónan hefur föst karaktereinkenni; hún er af lægri stéttum, fædd í örbirgð en kemur sér áfram í veröldinni á eigin verðleikum og kænsku og þarf gjarnan að beita prettum og svikum. Helsta leið persónunnar upp úr örbirgðinni er að gangast í þjónustu þeirra sem mega sín einhvers í samfélaginu. Ferðalög og flækingur er órjúfanlegur þáttur í lífshlaupi persónunnar, sem reynir á ferðum sínum mikið harðræði og óréttlæti sem gerir hvort tveggja að afhjúpa valdníðslu og ofbeldi yfirstéttarinnar og hæðast að lífsháttum hennar, hégóma, fégræðgi og öðrum dauðasyndum. Flest þessi einkenni má heimfæra upp á Sunnevu Sigrúnardóttur, sem rís upp úr örbirgð og ofbeldi og verður um tíma ráðskona í Skálholti, og má því ætla að undirtitillinn vísi til hennar. Það er líka skemmtilegur snúningur á bókmenntategundinni því fáar evrópskar skálkasögur hafa konur sem aðalpersónur, alla vega þegar slíkar sögur stóðu í sem mestum blóma, þótt nokkrar hafi verið skrifaðar síðar. Þar má til dæmis nefna átjándu aldar söguna af Moll Flanders sem eignuð er enska rithöfundinum Daniel Defoe, sem þekktastur er fyrir frásögn sína af Róbinson Krúsó . En einnig má velta fyrir sér hvort samtímamaðurinn Eyjólfur beri ekki líka einhver einkenni skálksins, ýmislegt í hans karakter og lífsreynslu fellur ágætlega inn í formið. Sér í lagi má í þessu samhengi velta fyrir sér hlut Eyjólfs í því að koma þeirri sögu frá síðmiðöldum sem miðlað er í bókinni á framfæri við nútímalesendur. Það er hann sem finnur öll þau handrit sem sagan er skráð á og ritar þau upp en glatar þó einnig að lokum. Öll sú saga er að sjálfsögðu með miklum ólíkindum en lesandi skyldi hafa í huga að hér erum við að lesa skáldskap en ekki sagnfræði – en fyrri bók Sigríðar, Hamingja þessa heims , var gagnrýnd fyrir að standast ekki fullkomlega sagnfræðilega rýni. Slík gagnrýni er á miklum villigötum. Undir lok Vegs allrar veraldar , þegar Eyjólfur hefur misst allar frumheimildir úr höndum sér, á hann í áhugaverðum samræðum við Mörtu frænku sína, sem er litrík persóna sem kemur mikið við sögu í bókinni. Hún segir: „Þetta verður aldrei neitt sagnfræðirit, úr því sem komið er. Þú verður að sætta þig við það. Þú hefur nákvæmlega ekkert í höndunum, nema textann sem þú hefur slegið inn. Og samt er hún þarna, sagan. Hún hrópar og kallar, berst um á hæl og hnakka, neitar að liggja kyrr. […] Ég veit hvað þér finnst um sögulegar skáldsögur. En saga er saga. Sönn eða skálduð, studd rituðum heimildum eða ímyndunarafli þess sem segir hana. Það er einhver ástæða fyrir því að þú fékkst hana upp í hendurnar. Og nú berð þú ábyrgð á að koma henni til skila. (466) Þetta er hvatning Mörtu frænku til Eyjólfs um að skrifa sögulega skáldsögu, byggða á þeim heimildum sem hann þekkir. Hann er tregur til en sögulok gefa þó til kynna að hann hafi orðið við hvatningunni og að bækurnar tvær, Hamingja þessa heims og Vegur allrar veraldar , séu höfundarverk hins breyska Eyjólfs Úlfssonar. Og þessar tvær sögulegu skáldsögur Sigríðar Hagalín Björnsdóttur veita okkur svo sannarlega vel þeginn aðgang að samfélagi sem sagnfræðiritin hafa fæst miklu að miðla um. Viðburðarík og marglaga frásögnin leiftrar af frásagnargleði. Fyrir slíkan skáldskap skyldi þakka, ekki síst þegar hann er framreiddur á eins stórbrotinn og skemmtilegan hátt og höfundi tekst að gera í þessum tveimur bókum. Soffía Auður Birgisdóttir, gagnrýnandi Víðsjár, fjallar um Veg allrar veraldar eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur. Hún segir skáldskapinn framreiddan á stórbrotinn og skemmtilegan hátt. Soffía Auður Birgisdóttir er doktor í bókmenntafræði og starfar við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði. Hún flutti pistilinn í Víðsjá sem finna má í spilaranum hér fyrir ofan.