Nóróveira bætist við inflúensufaraldur – fólk hvatt til að huga að smitvörnum

Fjöldi nórósmita þrefaldaðist í byrjun mánaðar á meðan inflúensufaraldur er fyrr á ferðinni en venjulega. Sóttvarnalæknir og yfirlæknir á Landspítalanum brýna fyrir fólki að huga að smitvörnum, ekki síst nú þegar hátíðarnar eru fram undan. Nóróveira er bráðsmitandi meltingafærasýking og smitast með snertingu milli fólks. 111 greindust með inflúensu í liðinni viku og 24 voru lagðir inn á sjúkrahús með slæm einkenni, álíka margir og vikuna áður. Inflúensa leggst sérstaklega þungt á fólk með undirliggjandi sjúkdóma og er fólk í áhættuhópi hvatt til að fara í bólusetningu. Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir nórósmitum hafa fjölgað mikið síðustu vikur. Hún segir lítið vera um nórósmit á sumrin og að þeim hafi tekið að fjölga í október. Fjöldinn hafi hins vegar haldist nokkuð stöðugur þar til í byrjun desember þegar hann þrefaldaðist á einni viku frá um það bil 10 til um 30. „Þetta kom svona mánuði fyrr en algengt er og inflúensan hefur verið á mikilli uppleið undanfarið. Staðan er enn þá þannig að það er mikið um smit og margir innlagðir á spítala. Nóróveira er algeng veirusýking, sérstaklega á vetruna. Hún kemur þá oft í svona hrinum og smitast bara mjög á milli fólks. Hún er bráðsmitandi,“ segir Guðrún. Ólafur Guðlaugsson, yfirlæknir sýkingavarnadeildar Landspítala, segir á fjórða tug hafa greinst með inflúensu á Landspítalanum síðustu vikur og álíka margir með nóróveiru. Faraldurinn sé töluverður og bæti álagi á sjúkrahúsið þar sem staðan sé erfið fyrir. „Einn einstaklingur getur smitað mjög marga þannig að við höfum verið að leggja áherslu á það, sérstaklega þegar við erum að fara í þessi jólaboð, að fólk passi handhreinsun vel, þvoi sér vel um hendurnar með vatni og sápu eftir salernisferðir og eins líka áður en það fer að taka til mat og þegar þú ert að fá þér mat, að nota þá áhöld til þess að taka til, vaðir ekki með kámugar krumlurnar í matinn,“ segir Ólafur. María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu, segir inflúensu og nóróveiru einnig hafa lagst á íbúa og starfsfólk á hjúkrunarheimilunum. Hún segist þó ekki vita til þess að þurft hafi að leggja neinn inn á sjúkrahús. Nóróveira hafi greinst hjá stórum hluta starfsfólks á þremur af sjö hjúkrunarheimilum Hrafnistu. Það sé ekki óvenjulegt að sýkingum fjölgi í kringum hátíðarnar, þegar gestagangur er meiri, en hún hvetur fólk til að huga vel að handþvotti og bíða með heimsóknir ef það finnur fyrir einkennum. „Það er mikilvægt að ná að halda þessu niðri að almenningur passi handþvottinn. Ef eitthvað er að ganga innan fjölskyldunnar frekar bíða með heimsókn að hringja frekar,“ segir María.