Sameinuðu þjóðirnar og yfir 200 samtök brýna alþjóðasamfélagið að þrýsta á Ísraela að aflétta tafarlaust hindrunum sem halda áfram að grafa undan mannúðarstarfi á Gaza. Stefna Ísarels ógni viðkvæmu vopnahléi og lífi fólks á Gaza. Hjálparstarf gengur enn erfiðlega á Gaza þrátt fyrir að vopnahlé hafi verið í gildi frá því í byrjun október. Svo erfiðlega raunar að Sameinuðu þjóðirnar og 200 samtök birtu sameiginlega yfirlýsingu í gær þar sem varað er við algjöru hruni mannúðaraðstoðar í Palestínu, einkum á Gaza, og alþjóðasamfélagið er brýnt til þess að grípa til tafarlausra aðgerða. Alþjóðasamfélagið er hvatt til að þrýsta á Ísrael að aflétta hindrunum sem grafa undan mannúðarstörfum á Gaza, sér í lagi skráningarferli sem er sagt óljóst, handahófskennt og mjög pólitískt. Hjálparsamtök segja ómögulegt að uppfylla skilyrðin án þess að brjóta mannúðarreglur. Samkvæmt núverandi reglum gætu tugir samtaka misst leyfi Ísraels til að starfa á Gaza. Ef það gerist þá leggst mannúðarstarf af, segir í yfirlýsingunni. Ísraelar innleiddu skráningakerfi fyrr á árinu og samkvæmt reglum þeirra mega samtökin til dæmis ekki tengjast opinberlega aðilum sem hafa kallað eftir sniðgöngu á Ísrael síðustu sjö ár né heldur neinum þeim sem að mati ísraelskra stjórnvalda hefur stutt herferðir gegn Ísrael eða lýst stuðningi við að ísraelskir hermenn verði sóttir til saka. Þá er krafist ítarlegra persónuupplýsinga um starfsmen samtaka. Ísraelsk stjórnvöld segja þetta gert til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn komist inn með hjálparsamtökum.