Það veldur bæjarráði Fjarðabyggðar áhyggjum að allt að tveir þriðju hlutar makríls sem íslenskar útgerðir veiða í norskri lögsögu fari á uppboðsmarkað í Noregi. Það telur ráðið að dragi úr aðgengi íslenskra fyrirtækja að hráefni, veiki innlenda vinnslu og flytji verðmætasköpun úr landi. Þetta segir bæjarráð í bókun sem var samþykkt á fundi þess í dag. Þar er lýst áhyggjum af því hvaða áhrif nýtt samkomulag við Bretland, Noreg og Færeyjar hafi á útgerð hérlendis og stöðu sveitarfélaga. Bæjarráðsfulltrúar lýsa áhyggjum af því að störfum í Fjarðabyggð fækki vegna samningsins þar sem stór hluti veiðinnar gæti farið í vinnslu annars staðar en hér á landi. „Samningurinn mun þannig bitna með beinum hætti á þjónustufyrirtækjum í Fjarðabyggð sem hafa fjárfest í innviðum og sérhæfðri starfsemi tengdri sjávarútvegi en hafa hvorki möguleika á að flytja starfsemi sína né að aðlaga sig hratt að svo róttækum breytingum.“ „Afleiðingin er aukin hætta á uppsögnum og fækkun starfa í sveitarfélaginu. Jafnframt mun samningurinn draga úr umsvifum fiskvinnslu og hafnarstarfsemi og skerða tekjur hafnarsjóðs. Þetta kemur ofan í boðaðan samdrátt í sjávarútvegi sem og auknar álögur á greinina og eykur þannig enn á óvissu sem leitt getur til aukins atvinnuleysis í sjávarbyggðum og enn frekari tekjusamdrátt í þeim byggðarlögum.“