Þurfa ákvörðun um fjárhagslegan stuðning fyrir áramót, segir Zelensky

Úkraínsk stjórnvöld þurfa á ákvörðun um fjárhagslegan stuðning að halda fyrir áramótin, sagði Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu fyrr í dag, eftir að hann hafði setið leiðtogafund Evrópusambandsins sem nú stendur yfir í Brussel. Þar er tekist á um hvaða leið ESB á að fara til að uppfylla loforð sem leiðtogarnir gáfu fyrr í vetur um aðstoð við Úkraínu næstu tvö árin. Á þéttskipuðum fundi með fjölmiðlafólki hér í Brussel sagði Zelensky að stjórnvöld í Kyiv hefðu gefið þetta skýrt til kynna. Zelensky sagðist hafa skilning á því að sum aðildarríki Evrópusambandsins hefðu efasemdir um lögmæti þess að nýta frysta fjármuni rússneska seðlabankans. „Úkraína þarf á stuðningi að halda, og þetta er besta leiðin, svo að stjórnvöld í Rússlandi skilji að þau eru sek og þurfa að borga fyrir það sem þau hafa gert.“ Búist er við að sendinefndir Úkraínu og Bandaríkjanna hittist um helgina til að ræða nánar útfærslu á tillögum um frið í Úkraínu. Zelensky sagði í dag að hann vonaðist eftir frekari útleggingum á hvernig Bandaríkjastjórn ætlar að tryggja öryggi Úkraínu, fari svo að hægt verði að stilla til friðar. „Þetta eru spurningar sem ég hef enn ekki fengið svör við,“ sagði Zelensky í dag. „Hvað ætla Bandaríkin að gera ef Rússar ráðast aftur inn? Hvernig verða þessar tryggingar og hvernig eiga þær að virka?“