Undrun nágranna „Græna gímaldsins“ skiljanleg – deiliskipulagi breytt 12 sinnum

Það er skiljanlegt að nágrannar Græna gímaldsins svokallaða, atvinnuhúsnæðis við Álfabakka í Reykjavík, hafi verið undrandi yfir stærð þess og ásýnd þegar það tók að rísa, segir Ásdís Hlökk Theódórsdóttir skipulagsfræðingur, sem skrifaði grein um skipulagsmál í tengslum við lóðina og húsið. Umræðan um húsið hefur verið mjög hávær síðan framkvæmdir komust á skrið. Íbúar í Árskógum 7, fjölbýlishúsi við Græna gímaldið, hafa til að mynda harðlega gagnrýnt staðsetningu, stærð og ásýnd hússins. Þeir hafa farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar, byggingarleyfi dregið til baka og að húsinu verði breytt eða það hreinlega rifið. Reykjavíkurborg ákvað í janúar að ráðast í stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu en niðurstaða liggur ekki fyrir. „Deiliskipulag fyrir þetta svæði, Suður-Mjódd, er upphaflega frá 2009 og á því hafa síðan verið gerðar 12 breytingar, sem ýmist taka til alls svæðisins eða einstakra lóða á svæðinu. Nokkrar þeirra varða alveg sérstaklega þessa lóð, Álfabakka 2a,“ sagði Ásdís Hlökk á Morgunvaktinni á Rás 1. „Á einum tímapunkti er henni breytt í fjórar lóðir, og svo aftur í eina.“ Framsetning skipulagsgagna sé ekki nægilega stöðluð sem geri fólki erfitt að átta sig á hvað nákvæmlega felst í fyrirhuguðum framkvæmdum. Það sé þar að auki tímafrekt. Því sé skiljanlegt að fólk sem býr í nágrenni hússins hafi rekið upp stór augu þegar það var farið að taka á sig mynd. „Þegar síðustu breytingar eru gerðar fyrir þessa lóð, þá er íbúðarhúsið þegar risið. Það átti alveg að liggja fyrir; bæði fyrir skipulagsráðgjafa, Reykjavíkurborg sem skipulagsstjórnvald og sem byggingarleyfisveitanda, að það þyrfti sérstaklega að skoða þessa nánd.“ Í grein hennar segir að annmarkar á efni og framsetningu deiliskipulags fyrir lóðina Álfabakka 2A veki upp spurningar um hvort núverandi nálgun sé fullnægjandi. Greining hennar á skipulagsgögnum sýni að ýmsar brotalamir virðast vera á skipulagsmálum varðandi lóðina. „Þetta er dýrmætt svæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu sem ætlað er fyrir fjölbreytt not, sem margir munu heimsækja. Við ættum að vera að gera kröfu um miklu ítarlegri og vandaðri skipulagsumgjörð fyrir svona svæði,“ segir Ásdís Hlökk. Þá virðist afgreiðsla skipulagsmála í tengslum við Græna gímaldið einnig sýna að þörf sé á umbótum í regluverki, stefnumótun og framkvæmd skipulagsmála í heild. Skipulagsmál geti reynst mörgum sveitarfélögum erfið og faglegt stuðningsnet sé ekki jafn mikið hér og í nágrannalöndunum. Til að mynda þurfi að skerpa á kröfum skipulagsreglugerðar og bæta stefnumótun um borgarhönnun og hið byggða umhverfi.