Tilhlökkun og stemning: „Við erum alltaf brattir í janúar“

Evrópumót karla í handbolta hefst 15. janúar. Björgvin Páll Gústavsson er á leið á sitt 19. stórmót og segir eftirvæntinguna mikla. „Það er tilhlökkun og stemning. Jólin eru að koma og þá vitum við hvað bíður okkar í janúar.“ Björgvin Páll segir liðið ætla sér stóra hluti á EM en býst jafnframt við sterku móti „Munurinn á EM og HM er að það eru eiginlega bara góð lið á EM. Þetta verða allt hörkuleikir.“ Allt opið eftir gott gengi á síðasta móti? Íslenska liðið tapaði aðeins einum leik á síðasta stórmóti en féll úr leik eftir milliriðla. Björgvin Páll segir allar dyr opnar. „Ég heyrði það síðast bara í síðustu viku að við værum stigahæsta liðið sem dettur út eða eitthvað svoleiðis. Sem er leiðinlegt en líka gott. Það gefur góð fyrirheit. Við vorum að gera gott mót og það gekk vel en það féll ekki með okkur.“ Hér má sjá viðtalið við Björgvin Pál í heild sinni. Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segir reynsluna sem íslenski hópurinn hefur mikilvæga. Björgvin Páll er á leið á sitt 19. stórmót. Þá segir hann hópinn hafa þroskast vel saman að undanförnu. Mikil reynsla í hópnum Allir 18 leikmenn hópsins sem heldur á EM hafa áður tekið þátt á stórmóti utan Andra Freys Rúnarssonar. Björgvin Páll þá miklu reynslu sem býr í hópnum góða. „Snorri kom inn á að hann vildi halda reynslunni í hópnum, sem er vel held ég. Þetta er hópur sem hefur vaxið svolítið saman. Við sáum það bara í leikjunum gegn Þjóðverjum. Það voru tveir mjög ólíkir leikir. Við náðum að þroskast á þeim þremur dögum. Það er að myndast ákveðinn þroski, liðið er að þroskast saman. Það lítur vel út bæði innan vallar og utan. Það er partur af þessu.“ Það hafa verið sveiflur í íslenska liðinu, bæði stórir og góðir sigrar en einnig nokkuð erfið töp. Björgvin Páll segir Þýskalandsleikina tvo mikilvæga og þar hafi fengist nokkur svör. Þar tapaði Ísland fyrri leiknum með ellefu mörkum, 31-42, en sá síðari vannst með tveimur, 29-31. „Við vorum að spila við Þýskaland á þeirra heimavelli, í stemningu og látum. Ekki týpískir æfingaleikir. Þar fékk Snorri helling af svörum held ég og gaurarnir eru líka að læra inn á hvorn annan.“ Mikilvægt að beisla orkuna Björgvin segir stórmótin taka huga og hjörtu leikmanna en segir mikilvægt að hafa orkuna í jafnvægi. „Á stórmótum er mikið hjarta í þessu. Það eru mikil læti. Að kunna að beisla það er ekkert einfalt en vonandi, með ákveðinni reynslu og þessari góðu blöndu sem er í liðinu í dag, þá vonandi tekst það.“