Janus Daði Smárason segir íslenska liðið eiga óklárað verkefni á stórmóti. Hann telur að liðsmenn séu farnir að þekkja hvorn annan það vel að þeir viti hvað þurfi til. Í dag var valið í landsliðið fyrir Evrópumótið í handbolta sem hefst í janúar. Töpuðu bara einum leik á HM Síðasta heimsmeistaramót var skrýtið þar sem liðið mátti aðeins þola eitt tap en fór heim. Eiga strákarnir eitthvað óklárað frá því móti? „Já, ég held líka bara með þennan hóp sem hefur verið í dálítinn tíma. Þetta eru búin að vera mörg ár þar sem maður fer hálfsúr heim. Það er reynsla sem við búum að núna. Það er aðeins meiri ró yfir hópnum.“ „Við vitum hvað það er stutt á milli oft. Það eina sem við getum stýrt er að undirbúa okkur vel. Svo snýst þetta bara númer 1, 2 og 3 um að vinna handboltaleiki,“ bætti hann við. Janus Daði Smárason er klár í slaginn fyrir Evrópumót karla í handbolta. 18 manna hópur var valinn í dag. Hann ræddi óklárað verkefni frá HM í fyrra, hvernig það verður að hitta strákana aftur og stöðuna á meiðslunum sínum. Kaffi og rífa smá kjaft Liðið kemur saman til æfinga 2. janúar næstkomandi. Janus er spenntur að hitta liðsfélagana. „Ég er spenntur að byrja. Þetta er hópur af hörkugaurum. Allir eru að spila mikið og vel. Ég held þetta sé hópur sem hefur verið það mikið saman að eftir fyrstu æfingu líður okkur eins og við höfum verið saman í ár. Allir bestu vinir. Fá sér smá kaffi og rífa aðeins kjaft. Svo er bara gott að komast í gang.“ Þurfa að vinna riðilinn ætli þeir sér langt Janus er orðinn ansi sjóaður í stórmótafræðunum og telur það lykilatriði að vinna riðilinn. Ísland er með Póllandi, Ítalíu og Ungverjalandi í riðli. Lokaleikurinn er gegn Ungverjum og þar gæti orðið ansi mikið undir, upp á að taka með sér stig í milliriðil. „Við ætlum að byrja á því að negla þennan riðil. Það hefur sýnt sig að það er afgerandi ef maður ætlar að ná árangri á stórmóti. Þú verður að vinna riðilinn. Eftir það er þetta samansafn af öllum liðunum sem eru mjög góð. Þá kemur að því að það eina sem telur er að vinna leik.“ Enginn Aron Aron Pálmarsson er ekki með í ár en Janus segir komið að öðrum. „Þetta er náttúrulega nýtt mót án Arons en við höfum svo sem farið á stórmót án hans áður. Nú er bara komið að okkur hinum að rífa aðeins meira til okkar, að koma bara með frammistöðu. Ég held að það sé fókusinn á öllu,“ sagði Janus. Ógeðslega leiðinlegt að vera í fríii Janus er að eiga við meiðsli á hné að stríða og er að koma til baka. Hann segir hnéð í góðu lagi en það er helst fríið sem er að angra hann. „Ég er bara orðinn 100% í hnénu held ég, sko. Það er ekkert að plaga mig. Svo þurfti ég 1, 2, 3 vikur til að komast í leikform aftur. Svo snýst þetta um að æfa vel milli jóla og nýárs. Ég er í langri pásu þannig ég þarf því miður að vera í „off-season“ núna. Það er ógeðslega leiðinlegt, sko. Það er eiginlega það versta við þetta allt saman að vera í fríi. Þá þarf ég að sinna mér. „En ég finn að ég er mótiveraður í að taka á því núna og mæta þá klár 2. janúar. Ég held að það séu allir að hugsa um það sama, að vera í sem besta formi þegar við byrjum,“ sagði Janus að lokum