Biden og Obama smánaðir en Trump hylltur

Texti sem Donald Trump Bandaríkjaforseti lét setja upp við myndir af forsetum Bandaríkjanna sem handa í svokölluðum frægðargangi í Hvíta húsinu hefur vakið athygli. Pólitískir andstæðingar Trumps eru smánaðir á meðan hann sjálfur er hylltur. Trump kynnti nýja frægðarganginn í haust. Hann er í vesturálmu Hvíta hússins, þar hanga myndir af forsetum Bandaríkjanna og nú hefur upplýsingaskiltum verið bætt við þar sem lesa má um forsetana. Að sögn Karoline Leavitt, talskonu Hvíta hússins, eru margir textanna skrifaðir af forsetanum sjálfum. „Afleitt“ og „einhliða“ samkomulag Barack Obama, sem var forseti frá 2009 til 2017, er sagður einn umdeildasti stjórnmálamaður í sögu Bandaríkjanna. Hann hafi samþykkt „afleitt“ kjarnorkusamkomulag við Íran og „einhliða“ Parísarsamkomulag um loftslagsmál - Trump hafi rift þeim báðum. Undir Obama hafi hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki breiðst út um Mið-Austurlönd og Rússland hertekið Krímskaga í Úkraínu. Handvalinn eftirmaður hans Hillary Clinton hafi svo tapað embættinu fyrir Trump. Textinn um Obama í heild Barack Hussein Obama var fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna, skipulagði og samhæfði samfélög, var öldungadeildarþingmaður Illinois í eitt kjörtímabil og einn af umdeildustu stjórnmálamönnum í sögu Bandaríkjanna. Sem forseti samþykkti hann afar árangurslausa „rándýra“ heilbrigðislöggjöf, sem varð til þess að flokkur hans missti meirihluta í báðum deildum þingsins og Repúblikanar fengu mesta meirihluta í fulltrúadeildinni síðan 1946. Hann stýrði stöðnuðu hagkerfi, samþykkti „afleitt“ kjarnorkusamkomulag við Íran og undirritaði hið „einhliða“ Parísarsamkomulag um loftslagsmál - sem Donald J. Trump forseti rifti báðum síðar. Undir Obama breiddist ISIS-kalífatið út um Mið-Austurlönd, Líbía hrundi og Rússland réðst inn í Krímskaga í Úkraínu og hertók hann. Hann lamaði lítil fyrirtæki með ströngu regluverki og umhverfisskriffinnsku, tortímdi bandarískum kolanámuverkamönnum og notaði skattyfirvöld og alríkisskrifstofur sem vopn gegn pólitískum andstæðingum. Obama njósnaði einnig um forsetaframboð Donalds J. Trump árið 2016 og var upphafsmaður „Rússland, Rússland, Rússland“-blekkingarinnar, sem var mesta stjórnmálahneyksli í sögu Bandaríkjanna. Handvalinn eftirmaður hans, Hillary Rodham Clinton, tapaði svo forsetaembættinu fyrir Donald J. Trump. Joe Biden fær ekki mynd af sér heldur er mynd af sjálfvirkum penna sem Trump hefur gagnrýnt hann mjög fyrir að nota. Þess má geta að margir forsetar hafa notað slíkan penna, þeirra á meðal Trump sjálfur. „Syfjaði“ og „svikuli“ Biden Biden er kynntur sem „syfjaði“ og „svikuli“ Biden - uppnefni sem Trump notar gjarnan. Hann er sagður langversti forseti í sögu Bandaríkjanna, stefna hans hafi valdið mestu verðbólgu sem mælst hafi og veikleikar hans hafi orðið til þess að Rússar réðust inn í Úkraínu og Hamas réðst á Ísrael 7. október. Síðar hefði Trump verið endurkjörinn og bjargað Bandaríkjunum. Textinn um Biden í heild Syfjaði Joe Biden var langversti forseti í sögu Bandaríkjanna. Hann tók við embætti eftir spilltustu kosningar sem sögur fara af í Bandaríkjunum. Biden stýrði fjölda fordæmalausra stórslysa sem leiddu þjóðina á barm eyðileggingar. Stefna hans olli mestu verðbólgu sem mælst hefur, sem varð til þess að Bandaríkjadalurinn missti yfir 20% af verðgildi sínu á fjórum árum. Græna svikamyllan hans gaf eftir yfirráð Bandaríkjanna yfir orku og með því að afnema landamærin í suðri leyfði Biden 21 milljón manna frá öllum heimshornum að streyma inn í Bandaríkin, þar á meðal úr fangelsum, geðsjúkrahúsum og stofnunum. Hamfarir hans í Afganistan eru á meðal mest niðurlægjandi atburða í sögu Bandaríkjanna og leiddu til morða á 13 hugrökkum bandarískum hermönnum og margir aðrir særðust illa. Sökum hræðilegra veikleika Bidens réðst Rússland inn í Úkraínu og Hamas-hryðjuverkamenn frömdu viðbjóðslega árás á Ísrael 7. október. Biden, sem fékk gælunöfnin syfjaði og svikuli Joe, var stjórnað af róttæka vinstrinu. Róttæka vinstrið, og bandamenn innan falsfréttamiðla, reyndu að hylma yfir það að andlegri heilsu hans hrakaði alvarlega og fordæmalausa notkun hans á sjálfvirka pennanum. Eftir niðurlægjandi tap hans gegn Trump í stóru kappræðunum í júní 2024 þurfti hann að draga sig í hlé frá baráttunni til endurkjörs í skömm. Biden notaði lögregluna sem vopn gegn pólitískum andstæðingi og ofsótti fleira saklaust fólk. Þegar hann lét af embætti náðaði hann glæpamenn og þrjóta úr röðum róttækra Demókrata ásamt meðlimi Biden-glæpafjölskyldunnar - en þrátt fyrir allt þetta náði Trump endurkjöri með yfirburðum og bjargaði Bandaríkjunum. Í þessum textum eru rangfærslur, til dæmis var ekki mesta verðbólga í valdatíð Bidens. Hún jókst vissulega mikið í hans valdatíð og mældist mest 9,1 prósent árið 2022 - eftir heimsfaraldur og innrás Rússa í Úkraínu. Hún hefur samt mælst mun meiri , mest árið 1920 þegar hún var 23,7 prósent. Þá hafa engar sannanir komið fram um að niðurstöðum kosninganna 2020 hafi verið hagrætt. Þar að auki voru landamærin við Mexíkó ekki afnumin og fjöldi þeirra sem komu til Bandaríkjanna í valdatíð Bidens er ekki 21 milljón heldur undir 15 milljónum. Einnig er orðalagið gildishlaðið og lýsir frekar skoðunum einhvers á embættisverkum heldur en staðreyndum.