Þessar framkvæmdir urðu út undan í síðustu samgönguáætlun

Sjö verkefni úr samgönguáætlun síðustu ríkisstjórnar bíða enn framkvæmdar. Vegirnir eru víða um land og Vegagerðin segir í flestum tilvikum hafa skort fjármagn til að ráðast í verkin. Fyrri ríkisstjórn tiltók 54 verkefni í samgöngukerfinu sem átti að ráðast í á árunum 2020 til 2024. Undir lok þessa árs er 14 þeirra ekki lokið. Sjö þeirra átti að fullklára fyrir lok síðasta árs og í hinum sjö átti ýmist að undirbúa eða hefja framkvæmdir. Þetta eru verkefnin sem tókst ekki að ljúka á tímabilinu: Vegurinn um Brekknaheiði frá Þórshöfn í átt að Bakkafirði er hafður með í þessari upptalningu þar sem framkvæmdir hófust ekki á tilsettum tíma, en Vegagerðin ræsti loks vélarnar þar í sumar eftir áralanga bið heimamanna. Áætlað er að vegurinn verði klár 2027. Hringvegur við Hveragerði. Til stóð að færa og breikka hringveginn sunnan við Hveragerði, frá Kömbum og að Varmá, en af því varð ekki. Hringvegur í Norðlingaholti. Eins átti að breikka hringveginn frá Rauðavatni í Norðlingaholti í Reykjavík og að Hólmsá, nærri afleggjaranum að Nesjavöllum. Brú yfir Skjálfanda og vegur um Aðaldal. Til stóð að laga veg um Aðaldal og brú yfir Skjálfandafljót á hringveginum við Goðafoss fyrir lok síðasta árs. Axarvegur. Svo átti að fara í framkvæmdir á einum mest umtalaða fjallvegi landsins, malarveginum yfir Öxi, milli Skriðdals og Berufjarðar á Austurlandi. Ekkert var þó úr því, en víða hefur verið talað um heilsársveg yfir Öxi sem forgangsmál á vettvangi stjórnmálanna meira en tuttugu ár. Í nýrri samgönguáætlun er stefnt á að hefja vinnu við veginn árið 2027. Þessi verkefni eru því öll á framkvæmdalista næstu fimm ára í nýrri samgönguáætlun - en hvort gangi að hrinda þeim í framkvæmd á eftir að koma í ljós. Biðin lengist eftir Veiðileysuhálsi og nýrri brú yfir Köldukvíslargil Strandavegur um Veiðileysuháls. Strandamenn hafa beðið lengi eftir heilsársvegi um Veiðileysuháls, af þeim framkvæmdum varð ekki í upphafi árs 2024 eins og til stóð. Sá vegur er ekki á framkvæmdaáætlun næstu fimm ára. Brú yfir Köldukvíslargil. Þar er ekki heldur að ný brú yfir Köldukvíslargil, í Tjörnesi norðaustur af Húsavík. Þar einbreið brú sem til stóð að tvöfalda á síðustu árum, en það verkefni reyndist flóknara en talið var í fyrstu og var því frestað. Fjarðarheiðargöng og fleiri verkefni mættu afgangi Sjö verkefni til viðbótar flokkar Vegagerðin svo sem ókláruð, en þau átti þó ekki að fullklára á tímabilinu 2020-2024. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafa þessi verkefni því verið undirbúin en eru sannarlega einnig ókláruð: Hringvegur um Mýrdal Reykjanesbraut, Fjarðarhraun-Mjódd Breiðholtsbraut, Hringvegur – Jaðarsel Örlygshafnarvegur um Hvalllátur Hringvegur um Jökulsá á Fjöllum Hringvegur um Lagarfljót Fjarðarheiðargöng Það að verkefni hafi verið undirbúin þýðir ekki endilega þau komi til framkvæmda í bráð. Mikið hefur til dæmis verið deilt um ákvörðun ráðherra að slá Fjarðarheiðargöng út af forgangsröðun jarðgangaframkvæmda, þó bæði sé búið að hanna þau og umhverfismeta. En hvers vegna tókst ekki að klára þessi verkefni innan tímarammans 2020-2024? Einfalda og stutta svarið er að það vantaði fjármagn í fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir sama tímabil. Miðað við fjárlögin 2022-2024 vantaði meira en 4 milljarða svo hægt yrði að framkvæma það sem til stóð á þeim tíma. Verðlagsþróun, eða verðhækkanir, höfðu einnig áhrif á hve miklu var hægt að hrinda í framkvæmd.