Mikilvægt að læknar tilkynni alvarlegt ofbeldi til lögreglu

Lögreglan telur eðlilegt að heilbrigðisstarfsfólk tilkynni til lögreglu ef sjúklingur hefur leitað endurtekið til sjúkrastofnana með áverka af völdum ofbeldis. Hins vegar er skiljanlegt að heilbrigðisstarfsfólk vilji að lög um þagnarskyldu séu skýrð nánar. Þetta segir Hildur Sunna Pálmadóttir, sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Formaður Læknafélagsins sagðist í gær vilja rýmri heimild til að tilkynna ofbeldismál. Var það eftir að læknar sögðu að þeir hefðu ekki mátt tilkynna langvarandi og gróft ofbeldi sem ung kona beitti foreldra sína því þeir hefðu ekki viljað það. Konan var í vikunni dæmd fyrir að verða föður sínum að bana. Þagnarskylda heilbrigðisstarfsfólks gildir nema lög bjóði annað eða rökstudd ástæða sé til þess að rjúfa hana vegna brýnnar nauðsynjar. „Við myndum telja að þegar fólk hefur komið ítrekað til læknis vegna áverka sem því eru veittir heima fyrir þá myndi það falla undir brýna nauðsyn að tilkynna [til lögreglu] án samþykkis þolandans; tilkynna til lögreglu því þarna er augljós hætta til staðar,“ segir Hildur Sunna. Hún kveðst sammála formanni Læknafélagsins að mál af þessum toga séu flókin. Trúnaður og þagnarskylda heilbrigðisstarfsfólks 34/2012: Lög um heilbrigðisstarfsmenn – 17. gr. Trúnaður og þagnarskylda: Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. nemar og þeir sem ekki eru heilbrigðisstarfsmenn, skulu gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu um heilsufar sjúklings, ástand, sjúkdómsgreiningu, horfur og meðferð ásamt öðrum persónulegum upplýsingum. Þetta gildir ekki bjóði lög annað eða rökstudd ástæða er til þess að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar. Samþykki sjúklings eða forráðamanns, ef við á, leysir heilbrigðisstarfsmann undan þagnarskyldu. Þagnarskylda samkvæmt þessari grein nær ekki til atvika sem heilbrigðisstarfsmanni ber að tilkynna um samkvæmt öðrum lagaákvæðum. Í þeim tilvikum ber heilbrigðisstarfsmanni skylda til að koma upplýsingum um atvikið á framfæri við þar til bær yfirvöld. Um trúnaðar- og þagnarskyldu heilbrigðisstarfsmanna gilda jafnframt ákvæði laga um réttindi sjúklinga, ákvæði laga um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á. „Það er skiljanlegt að heilbrigðisstarfsmenn myndu vilja að þetta yrði skýrt nánar, hvenær er um brýna nauðsyn að ræða. Við teljum það vera þegar almannahagsmunir eru í húfi og brotin það alvarleg, alvarlegar líkamsmeiðingar eða andlegt ofbeldi.“ Hildur Sunna segir mál þar sem þessi álitamál koma upp ekki vera algeng. Jákvæð skref hafi verið tekin síðustu ár. Hildur nefnir sem dæmi lagabreytingu 2023 þar sem tekið er fram að heilbrigðisstarfsmanni sé heimilt, að beiðni sjúklings, að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings. „Það er ýmislegt verið að gera en það mikilvægasta væri að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn myndu tilkynna svona alvarleg tilvik.“ Tilkynningar frá heilbrigðisstarfsfólki séu sérstaklega mikilvægar í ljósi þess hve mörgum þyki erfitt að leita sér aðstoðar vegna heimilisofbeldis. „Áskoranirnar eru að fá fólk til að stíga skrefið og leita sér aðstoðar, hvar sem það er gert, sérstaklega hér hjá lögreglu. Við höfum oft ekki framburð frá þolendum vegna ótta við gerendur. Því skipta upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki gríðarlega miklu máli fyrir okkur við rannsókn þessara mála.“ Verklag lögreglu þegar slíkar tilkynningar berast sé að senda alltaf lögreglu á staðinn þannig að þolandi fái að tjá sig strax. Lögreglan vilji tryggja traust þolenda til kerfisins og lögreglunnar og aðstoða þá við að komast út úr aðstæðunum. „Viðkomandi þarf ekki sjálfur að leggja fram kæru. Lögregla getur hafið rannsókn án í rauninni samþykkis þolanda. Við gerum það oft þegar staðan er þannig að við teljum ekki hægt að aðhafast ekki. Við reynum alltaf að rannsaka málin í samráði við vilja þolanda en þegar við sjáum að málin eru þess eðlis og það alvarleg, þá höldum við áfram með rannsóknina og framkvæmum þær nauðsynlegu aðgerðir sem þarf að gera til að aðstoða þolandann og að gerandi sæti refsingu.“