100 ár frá svaðilför Fjalla-Bensa

100 ár eru liðin frá því hvunndagshetjan Benedikt Sigurjónsson, betur þekktur sem Fjalla-Bensi, hélt af stað upp á Mývatnsöræfi í leit að eftirlegukindum, sem síðan reyndist hin mesta svaðilför. Í tilefni af þessum tímamótum var gestum boðið að hlýða á erindi honum til heiðurs í Gestastofu Gígs í Mývatnssveit í kvöld. En hver var Fjalla-Bensi? Fjalla-Bensi var vinnumaður í Mývantssveit sem gerði það að ástríðu sinni að leita kinda á aðventunni, sem ekki höfðu skilað sér af fjalli. Þekktust er ferðasaga hans veturinn 1925 þar sem hann, ásamt forystusauði sínum Eitli og hundinum Leó, hélt upp á Mývatnsöræfi í svokallaðar eftirleitir. 100 ár eru frá svaðilför Fjalla-Bensa upp á Mývatnsöræfi, sem síðar varð úr vinsæl skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Tímamótunum var fagnað á heimaslóðum Bensa í Mývatnssveit í kvöld. Hugmyndin að baki Aðventu Gunnars Gunnarssonar Ferðasagan varð síðar innblástur að vinsælli skáldsögu Gunnars Gunnarssonar, Aðventu, sem þýdd hefur verið á 20 tungumálum. Ásta Kristín Benediktsdóttir, dósent í íslenskum bókmenntum, bauð gestum kvöldsins að hlýða á lestur úr sögu Gunnars ásamt því að ræða nánar um ferðalag Fjalla-Bensa. Þá var einnig rætt um forystufé og sauðinn Eitil ásamt því að Sigurður Erlingsson ræddi við gesti um ferðaveðrið sem lýst hefur verið sem aftakabyl. Þekktasta myndin af Fjalla-Bensa var tekin af Bárði Sigurðssyni í Höfða árið 1926 og sýnir hann hvar hann stendur ásamt sauði sínum og hundi. Gestum kvöldsins og þeim sem heimsækja Gíg á aðventunni býðst að máta sig inn í umhverfi myndarinnar, forystusauður er þar til staðar ásamt myndabakgrunni en hundinn verður fólk að koma með sjálft. Ásta Kristín segir ýmis kennileiti úr sögunni mega finna í sveitinni. „Við vitum til dæmis hvar Eitill blessaður var grafinn þegar ævi hans var lokið, það var á Helluvaði hérna í sveit.“ Þá má einnig nefna Péturskirkju á Mývatnsöræfum sem staðsett er á svipuðum slóðum og gististaður þeirra félaga. Auk þess sem grafreit Fjalla-Bensa er að finna við Reykjahlíðarkirkju. Hægt er að hlusta á Aðventu í lestri Andrésar Björnssonar í spilara RÚV hér að neðan. 100 ár eru frá svaðilför Fjalla-Bensa upp á Mývatnsöræfi, sem síðar varð úr vinsæl skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Tímamótunum var fagnað á heimaslóðum Bensa í Mývatnssveit í kvöld.