Ástralir hafa slegið met í blóðgjöf í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Bondi-ströndinni á sunnudag þar sem sextán voru drepin og fjöldi fólks var sært. Á fyrsta sólarhringnum eftir árásina bókuðu 50 þúsund Ástralir tíma í blóðgjöf og alls voru gefnar 7.810 gjafir af blóði, blóðvökva og blóðflögum víðs vegar um landið, þar af 1.300 frá fólki sem gaf blóð í fyrsta sinn. Síðan þá hafa 41.196 tímar í blóðgjöf verið bókaðir til viðbótar og 18.210 gjafir gefnar. Af þeim sem hafa gefið blóð í kjölfar árásarinnar eru nær 25 þúsund nýir blóðgjafar. „Þörfin fyrir fleiri blóð- og blóðvökvagjafa er viðvarandi. Ef um alvarlegt áfall eða neyðartilvik er að ræða getur þurft allt að 100 gjafir til að bjarga einu mannslífi,“ sagði Cath Stone, hjá ástralska blóðbankanum Lifeblood, í frétt The Guardian. Raunverulegur stuðningur við samborgara Ástralarnir sem The Guardian í Ástralíu talaði við voru sammála um að þetta væri það minnsta sem þeir gætu gert til að styðja við samlanda sína í Sydney. „Á þessum erfiðu tímum segja verkin meira en orðin. Að vera hér er einfaldlega að bretta upp ermarnar og veita samborgurum sínum raunverulegan stuðning,“ sagði hinn 47 ára George Manolakos, sem beið eftir að gefa blóð, í samtali við The Guardian. „Maður leggur hugmyndafræði sína og stjórnmálaskoðanir til hliðar til að hjálpa náunganum með það sem hann þarf á að halda núna, þetta er ekki flóknara en það.“ Síðasta met Ástralíu í blóðgjöfum var slegið árið 2009 þegar skógareldar geisuðu í Ástralíu með skelfilegum afleiðingum. Eldarnir voru með þeim allra mannskæðustu í sögu landsins og kostuðu 173 manns lífið.