Samfélagsmiðillinn TikTok hefur samþykkt fjárfestingasamning sem gerir honum kleift að forðast bann á bandarískum markaði. Samkvæmt minnisblaði frá Shou Chew, forstjóra TikTok, sem Bloomberg og Axios hafa vísað til í fréttum sínum, hefur kínverskt móðurfyrirtæki miðilsins, ByteDance, fallist á að stofna nýja samsteypu með fyrirtækin Oracle og MGX innanborðs sem fjárfesta. „Þegar samkomulagið tekur gildi mun samsteypan með Bandaríkjunum starfa sem sjálfstæður lögaðili með stjórn á bandarískri upplýsingavernd, öryggi reiknirita, eftirliti á efni og tryggingum á hugbúnaði,“ sagði Chew í minnisblaðinu. Bandaríkjaþing samþykkti lög til að banna TikTok árið 2024 vegna áhyggja af því að fyrirtækið, sem er kínverskt að uppruna, kynni að misnota aðgang sinn að persónuupplýsingum bandarískra notenda. Framkvæmd laganna var hins vegar frestað eftir að Donald Trump tók við embætti forseta á ný. Á fyrra kjörtímabili sínu hafði Trump sjálfur viðrað möguleikann á að banna TikTok en hann hefur farið fegurri orðum um miðilinn í seinni tíð og hefur vísað til þess að hann hafi komið að miklum notum í kosningaherferðinni 2024. Viðræður hafa farið fram á árinu um sölu TikTok til bandarískra fyrirtækja til þess að miðillinn geti áfram verið aðgengilegur í landinu. Larry Ellison forstjóri Oracle er náinn bandamaður Trumps, sem hafði áður vísað til þess að hann vildi að Ellison fengi stjórn á TikTok.