Stofnvísitala þorsks lækkar í ár eftir litlar breytingar síðustu þriggja ára á undan. Í tilkynningu á vef Hafrannsóknastofnunar segir að vísitalan sé þó yfir meðaltali áranna 1996 til 2025. Stofnmælingar botnfiska að haustlægi, svokallað haustrall, fór fram í 30. sinn dagana 27. september til 17. október. Tveir togarar, Breki VE-61 og Þórunn Sveinsdóttir VE-401, tóku þátt í ár ásamt rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni HF-200. Lítið mældist af 8 til 15 sentímetra þorski í ár. Klara Jakobsdóttir, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir það ekki þurfa að hafa mikla þýðingu fyrir framhaldið. Það hafi ekki verið sterkt samband á milli nýliðunar í stofninum og þess sem síðar komi inn. Hún segir niðurstöður mælingar sýna að ekki séu miklar breytingar frá stofnmælingum síðustu ára. Minna mælist af ýsu Stofnvísitala ýsu lækkar líka en er þó yfir meðaltali síðustu 30 ára. Mæling á 0-grúppu ýsu, það eru fiskar sem eru ekki orðnir eins árs, var sú hæsta í fimm ár. „Vísitala grálúðu lækkar aðeins en vísbendingar eru um bætta nýliðun. Þróun vísitölu gullkarfa er jákvæð en vísitala djúpkarfa helst óbreytt á milli ára. Nýliðun þessara tveggja stofna hefur mælst lítil sem engin um árabil, en hefur þó orðið vart hjá gullkarfa eftir 2020,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar. Vísitala ufsa hefur haldist nokkuð óbreytt síðustu sex ár. Vísitala gulllax lækkar frá fyrra ári en er enn há og „langt yfir meðaltali“ áranna 1996 til 2025. „Vísitala blálöngu hækkar og er nú nálægt meðaltali áranna 1996-2025. Vísitala keilu er ein af þeim hærri sem mælst hafa yfir tímabilið 1996-2025. Aldurslesningu á þorski er ólokið en niðurstöður verða uppfærðar þegar þeirri vinnu lýkur snemma á næsta ári.“