Mette Marit, krónprinsessa Noregs, er með alvarlega trefjavefslungnabólgu og þarf líklega á lungnaígræðslu að halda. Frá þessu greinir hún og Hákon krónprins í viðtali við norska ríkisútvarpið. Mette Marit gekkst undir endurhæfingu fyrir tæpum tveimur mánuðum vegna veikinda í lunga. Síðan þá hefur heilsu hennar hrakað mjög. „Ég vonaði alltaf að við gætum haldið sjúkdómnum í skefjum með lyfjagjöf og hingað til hefur þróun hans verið nokkuð hæg. Núna er þróunin þó hraðari en ég eða læknar höfðum vonað,“ segir Mette Marit. Lungnaígræðsla er stór og hættuleg aðgerð og hana þarf að tímasetja af kostgæfni. Ekki má ráðast í slíkt inngrip of snemma og ekki of seint þegar líkaminn er orðinn of veikburða, segja læknar á ríkissjúkrahúsinu í Osló. „Þetta er stór aðgerð og það eru margir áhættuþættir. Þeir sem gangast undir svona ígræðslu verða að taka ónæmisbælandi lyf ævilangt,“ sagði Are Martin Holm, deildarstjóri lungnasjúkdóma á ríkissjúkrahúsinu, á blaðamannafundi í morgun . Nafn Mette Marit hefur ekki enn verið sett á lista yfir lungnaþega, segja læknar. Grannt er þó fylgst með ástandi hennar. Um 20 til 40 sjúklingar eru jafnan á biðlista eftir nýju lunga og krónprinsessan fær engan forgang. Hákon krónprins er fremstur í erfðaröð norsku krúnunnar og Mette Marit krónprinsessa er því næsta drottning Noregs. Haraldur Noregskonungur er 88 ára gamall og hefur glímt við heilsubrest um nokkra hríð. Hann tók við sem konungur árið 1991 eftir fráfall Ólafs fimmta, föður hans. Hákon og Mette Marit gengu í hjónaband 2001 og eiga tvö börn, Ingiríði Alexöndru prinsessu, fædd 2004, og Sverri Magnús prins, fæddur 2005. Fyrir átti Mette Marit soninn Marius Borg Høiby, sem ákærður var fyrr á þessu ári fyrir nauðgun og heimilisofbeldi í garð fyrrverandi kærustu. Réttarhöld yfir honum hefjast í febrúar.