Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, var beitt kynferðisofbeldi í æsku af bónda í sveit þangað sem hún var send í á sumrin. Hún var sjö ára þegar misnotkunin hófst og ellefu ára þegar hún hætti að fara í sveitina. Halla segir frá þessu í viðtali í nýjasta tölublaði Heimildarinnar . „Á meðan þessu stóð varð ég líkamlega veik af álaginu og á hverju sumri var ég send fyrr heim. Eitt sumarið fór ég heim með lungnabólgu. Líkaminn bregst við öllu og geymir allt, öll sárin og áföllin,“ segir Halla í viðtalinu. Halla segir að hún sé af þöglu kynslóðinni sem sagði ekki frá, kynslóðinni „sem setti plástur á sárin og hélt áfram“. Ungar konur hafi leitað til hennar sem vita að hún deili þessari reynslu með þeim. Góðar fyrirmyndir skipti máli og það er ekki síst vegna þess sem hún sé tilbúin til að ræða sína reynslu. „Mér var orðið illt alls staðar“ Hún segir að í einfaldri mynd fari flestar konur eina af tveimur leiðum eftir kynferðisofbeldi. Annaðhvort finni þær fyrir sjálfseyðingarhvöt sem geti fylgt mikil drykkja og slæm ástarsambönd. „Hin birtingarmyndin er að þú sért svo rosalega sterk, svo rosalega dugleg, að þú þurfir ekki á neinum að halda. Þá getur enginn séð hvað þú ert að fela. Ég fór aðallega seinni leiðina. Á endanum varð mjög þungt að halda uppi þessari grímu. Mér var orðið illt alls staðar,“ segir Halla. Halla var orðin 23 ára þegar hún sagði frá misnotkuninni. Maðurinn sem braut á henni var þá enn á lífi. Hún ákvað að kæra ekki. „Ég vildi ekki leggja það á mig að fara í gegnum þetta ferli, því mér fannst nóg vinna að finna út úr því hvernig ég ætlaði eiginlega að vera. Ég hef aldrei séð eftir því,“ segir Halla í viðtali Heimildarinnar.