Borgaryfirvöld hafa undanfarin ár reynt að finna hentugan stað fyrir hjólhýsabyggðina. Hún var áður í Laugardal en fyrir tveimur árum var henni gert að flytja þaðan og síðan þá verið á Sævarhöfða, á lóð gamallar sementsverksmiðju. Í maí var starfshóp falið að finna hjólhýsabyggðinni nýjan samastað og í síðasta mánuði benti flest til þess að sá staður yrði í Skerjafirði. Borgarráð samþykkti hins vegar í gær að fela umhverfis-og skipulagssviði að skoða lóð í Gufunesi. Á meðan verður núverandi stæði á Sævarhöfða lagfært til bráðabirgða þannig að það verði boðlegt til dvalar fyrir borgarbúa. Velferðarsviði á sömuleiðis að bjóða íbúum upp á stuðning og ráðgjöf og ráðgert er að hefja samtal við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um langtímabúsetu í hjólhýsum. Hildur Björnsdóttir og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sátu hjá við afgreiðslu málsins og gagnrýndu að skipuleggja ætti varanlega staðsetningu í Gufunesi á svæði sem hugsanlega færi undir Sundabraut. Brýnt væri þó að leysa málefni íbúa því núverandi staðsetning væri óviðunandi. Einar Þorsteinsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, sagði í sinni bókun að hjólhýsabyggð væri ekki æskilegt búsetuform og það væri óásættanlegt að börn, aldraðir og veikt fólk byggi í hjólhýsabyggðinni á Sævarhöfða. Æskilegra væri að tryggja fólki húsnæðisöryggi í gegnum félagslega íbúðakerfið. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, tók undir þessa gagnrýni, hjólhýsabyggð ætti ætti ekki að vera hluti af grunnþjónustu borgarinnar og í nágrannalöndum væru þessi svæði rekin af einkaaðilum.