Inflúensubóluefnið að klárast

Inflúensubóluefni er að klárast á landinu. Anna Bryndís Blöndal, fagstjóri lyfjaþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segist ekki gera ráð fyrir meira bóluefni í vetur. „Það er ekkert bóluefni til hjá heildsala, það gætu verið örfáir skammtar eftir á einstaka stöðum en á heildina litið er allt að klárast,“ segir Anna Bryndís. „Við gerum ekki ráð fyrir meira inflúensubóluefni, þetta tímabil er þegar komið langt á veg og framleiðsla og dreifing bóluefna miðast yfirleitt við ákveðinn ramma. Í ár hefur einfaldlega orðið óvenju mikil eftirspurn eftir bóluefninu.“ Anna Bryndís segir jafn mikið bóluefni hafa verið keypt inn og á síðasta ári. „Faraldurinn var bara mjög skæður og byrjaði snemma sem gerir það að verkum að við erum að klára bóluefnið.“ Hún segir pantanir og dreifingu bóluefnis í hendi Landlæknisembættisins. Það sé óvenjulegt að bóluefnið klárist en líklegt að þörfin verði endurmetin. „Við gerum ráð fyrir því að þau skoði þetta tímabil og fari kannski eftir því í næstu pöntun.“