Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur boðað til blaðamannafundar þar sem kynnt verður aðgerðaáætlun í málefnum fjölmiðla. Hann boðar að tekið verði á stöðu Ríkisútvarpsins. Logi segir aðgerðirnar hafa verið í vinnslu síðan hann tók við ráðuneytinu en hann boðaði þær í nóvember eftir að Sýn tilkynnti fækkun fréttatíma og uppsagnir. Formaður Blaðamannafélagsins sagði rekstrarumhverfi fjölmiðla ósjálfbært og varaði við því að Ríkisútvarpið gæti orðið eini fréttamiðillinn eftir örfá ár, yrði ekkert að gert. Logi kynnti aðgerðapakkann í ríkisstjórn 5. desember eftir samráð við fjölmiðla. Í viðtali sama dag sagði hann að margar aðgerðanna væru á forræði annarra ráðuneyta og því þyrfti að ræða þær í ráðherranefnd um ríkisfjármál áður en þær yrðu kynntar opinberlega. „Þetta er samansafn svona um það bil tuttugu aðgerða sem tekur svona á heildarumhverfi fjölmiðla og stöðu þeirra á Íslandi, ekki síst gagnvart bara nýjum áskorunum erlendis frá,“ sagði Logi í viðtali eftir ríkisstjórnarfund í morgun og vísaði þar líklega til þess stóra hluta auglýsingatekna sem samfélagsmiðlar hafa sópað til sín. Hann vildi ekki segja fréttamanni hvaða aðgerðir yrðu kynntar, fyrr en á blaðamannafundinum síðdegis. „Ég ætla að kynna öllum efnisþættina saman. En ég get þó sagt að þetta tekur auðvitað á þáttum eins og stöðu Ríkisútvarpsins, sterkum sjálfstæðum fjölmiðlum, almennum rekstraraðstæðum, sterkari stétt innan blaðamannahópsins,“ segir Logi. Hann segir að aðgerðirnar muni fjalla um samspil Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Sumar aðgerðirnar taki strax gildi, aðrar séu langt komnar og enn aðrar taki fullt gildi um þarnæstu áramót. Blaðamannafundurinn hefst klukkan tvö og hægt verður að fylgjast með í beinu streymi hér á ruv.is.