Bústaðakirkja opin vegna slyssins í Suður-Afríku

Bústaðakirkja í Fossvogi í Reykjavík verður opin í dag vegna alvarlegs umferðarslyss sem íslensk fjölskylda lenti í í Suður-Afríku á miðvikudaginn. Sigríður Kristín Helgadóttir, prestur í Bústaðakirkju, segir þetta gert í samráði við fjölskylduna. Dyr kirkjunnar standa opnar frá klukkan tvö. „Þetta er alvarlegt umferðarslys sem snertir samfélagið okkar hér í Bústaðakirkju og þess vegna ætlum við að opna dyrnar fyrir öll þau sem vilja koma og tendra bænaljós," segir Sigríður Kristín. Bílslysið varð við borgina Mbombela í Suður-Afríku, um þrjú hundruð og fimmtíu kílómetra austur af Jóhannesarborg. Íslendingarnir sem lentu í slysinu er tengdir fjölskylduböndum og búsettir á Íslandi. Fréttastofa hefur upplýsingar um að fólkið hafi verið á ferðalagi. Málið er á borði borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið veitir ekki upplýsingar um líðan fólksins.