Nýjasta skáldsaga Einars Más Guðmundssonar, Allt frá hatti oní skó, er með sjálfsævisögulegu ívafi þó svo að persónan sem segir söguna heiti Haraldur. „Svo er annað skáld sem heitir Haraldur og við vitum að það er Einar Kárason,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir. „Ég verð að segja að ég skil ekki alveg tilganginn með því að Einar Már breyti sínu nafni og nokkrum öðrum en aðrir halda sínum nöfnum.“ „Því ég les þetta bara sem endurminningabók. Hann fer þarna til Danmerkur 1979 með kærustu sinni og þarna er hann að lýsa bókmenntalífi. Þarna eru vangaveltur um hlutverk bókmenntanna og slíkt.“ Í Danmörku lendir hann nefnilega strax í suðupotti menningarinnar og kynnist margs konar fólki, ekki síst listamönnum og skáldum, viðhorfum og tónlist. „Þetta er læsileg frásögn og ég er bara komin á þann aldur að ég þekkti flestar persónur, jafnvel þótt þær fari ekki með réttum nöfnum. En ég verð samt að segja að mér fannst ég hafa heyrt ansi margt af þessu áður.“ „Einar Már var ekki að segja mér neitt nýtt. Mér finnst hann hefði mátt vera djarfari.“ Eins og að kafa ofan í hugarheim einhvers með athyglisbrest Í sögunni fá íslensku skáldin dulnefni á meðan hin norrænu halda sínum. „Mér fannst það dálítið skrítið en kannski er það vegna þess að þessi dönsku skáld og norrænu eru miklu þekktari,“ segir Ingibjörg Iða Auðunardóttir. „Mér fannst svo leiðinlegt að ég vissi að það væri verið að skrifa um einhvern sem ég þekkti ekki en kannski verður þetta meiri skáldsaga fyrir mér fyrir vikið,“ bætir hún við því hún er töluvert yngri en kollegi hennar. „Ég vissi bara að ég væri ekki með tengingarnar og varð pirruð út í mína tengingu. En mér finnst þetta mjög áhugavert. Ég var að heyra margt af þessu í fyrsta skipti, ég var ekki hugmynd þegar þetta fólk var að skrifa.“ Henni þótti sagan stundum svolítið óreiðukennd þar sem vaðið var úr einu yfir í annað. „Ég lýsi þessu eins og að kafa ofan í hugarheim einhvers sem er með gífurlegan athyglisbrest og vill koma öllu frá sér en gerir það mjög skemmtilega.“ „Ég hefði ekki viljað sleppa því að lesa þessa bók því hún er mjög áhugaverð en það vantaði aðeins meira utanumhald um kaflana sem gerast á Íslandi.“ Kolbrún segir að skemmtilegast hafi henni fundist að lesa um dönsku skáldin sem hún þekkti ekki eins vel. „Þetta er læsilegt en mér finnst að hann hefði getað gert aðeins betur.“ Gagnrýnendur Kiljunnar fjölluðu um Allt frá hatti oní skó eftir Einar Má Guðmundsson. Ingibjörg Iða hefði viljað aðeins meira utanumhald en Kolbrúnu fannst Einar Már hafa mátt vera djarfari í frásögninni. Fjallað var um Allt frá hatti oní skó eftir Einar Má Guðmundsson í Kiljunni. Þátturinn er í spilaranum hér fyrir ofan.