Segir samstarfið gott en uppskeruna frekar rýra

Fyrstu fjárlög ríkisstjórnarinnar voru samþykkt á sjöunda tímanum í gærkvöldi. Í gær var einnig samþykkt umdeilt frumvarp um kílómetragjald á ökutæki, frumvarp um hækkun frítekjumarks eldri borgara og frumvarp um hlutdeildarlán, sem á að gera þau aðgengilegri fleirum. Þingmenn halda nú í jólafrí. Í Þetta helst í dag er farið yfir þau mál sem hafa verið samþykkt í haust og stöðuna eftir áramót. Alþingi er komið í jólafrí og mörg stór mál bíða næsta árs. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður sem fylgist vel með á Alþingi, og hefur gert í langan tíma, segir samstarf ríkisstjórnarflokkanna gott en að uppskeran sé rýr eftir haustið. Ríkisstjórnin boðaði 157 mál í þingmálaskrá sem lögð var fram í upphafi hausts. Þegar litið er á stöðu mála nú þegar þing er hálfnað má sjá að 37 frumvörp hafa verið samþykkt, 56 bíða fyrstu umræðu, 37 eru í nefnd, 7 bíða annarrar umræðu og eitt þriðju umræðu. Nokkur stór frumvörp hafa verið samþykkt auk þeirra sem hér voru nefnd. Í því samhengi má til að mynda nefna frumvarp um lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. „Samstarfið í þessari ríkisstjórn virðist ganga vel og þau bera sig mjög vel. Tala mikið um þessa samstöðu og hvað flokkarnir nái vel saman og um leið og eitthvað kemur upp á í einhverjum af þessum þremur flokkum þá rísa hinir flokkarnir upp til varnar. Það sanna dæmin en það verður að segjast alveg eins og er að það var farið af stað núna í haust með mjög metnaðarfull áform og svona nokkuð feita þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar en uppskeran núna þegar þinghlé er komið er í rauninni frekar rýr,“ segir Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, sem lengi hefur fylgst með stöðu mála á Alþingi. Er þetta verkstjórn? „Verkstjórn getur alveg verið verkstjórn af því að hún leggur fram mörg mál, hún reynir að mæla fyrir þeim og gera margt en afkastasöm ríkisstjórn er ekki hægt að segja ef þú talar í þingmálum vegna þess að þingmálin eru lögð fram, liggja frammi, eru í einhvers konar meðferð en þau hafa ekki verið afgreidd. Svo maður taki nú kannski upp hanskann aðeins fyrir ríkisstjórnina, stjórnarandstaðan, þessir þrír stjórnarandstöðuflokkar, hafa auðvitað verið mjög, eigum við ekki að segja innan gæsalappa, duglegir við það að tefja málin,“ segir hún. Nánar er rætt um þessi mál í Þetta helst í dag.