Undanfarin ár hefur hver árgangur þorsks við Ísland verið léttari en sá sem á undan kom en nú eru vísbendingar um að holdafar þorsks sé betra. Þetta sagði Jónas Páll Jónasson, sviðsstjóri botnsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun. Í stofnmælingu botnfiska í haust, svokölluðu haustralli, kom í ljós að stofnvísitala þorsks lækkaði eftir litlar breytingar síðustu þrjú ár. „Það sem við erum að sjá, og sáum í síðustu mælingu í mars, er að þorskurinn er aðeins að dala,“ sagði Jónas í hádegisfréttum. „En núna í ár erum við að sjá aðeins jákvæðar vísbendingar um að holdafar þorsks sé betra og það gæti verið viðsnúningur þar.“ Breytingarnar séu hins vegar litlar. Lítið af loðnu hafi mælst í þorsksmaga og Jónas segir að fylgst verði vel með hvort það breytist í næstu mælingu. „Við viljum hafa þorskinn feitan og við viljum að hann hafi gott aðgengi að fæðu og þess vegna skiptir loðnan svona miklu máli. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með hvernig gengur að mæla loðnuna þegar hún gengur upp til hrygningar í janúar og febrúar.“