Hungursneyð yfirstaðin á Gaza en staðan enn grafalvarleg

Sameinuðu þjóðirnar segja að hungursneyðin á Gaza sé yfirstaðin í kjölfar þess að opnað var fyrir flutning hjálpargagna þangað þegar vopnahléi var lýst yfir í byrjun október. Hins vegar sé staðan enn grafalvarleg. Integrated Food Secutity Phase Classification (IPC) lýsti yfir hungurnseyð í Gaza-borg í ágúst. Samkvæmt gögnum IPC þjáðist rúmlega hálf milljón manna á Gaza þá af alvarlegri vannæringu. IPC er samvinnuvettvangur Sameinuðu þjóðanna og hjálparstofnana sem hefur eftirlit með hungri um allan heim. Vopnahlé milli Ísraela og Hamas-samtakanna á Gaza hófst 10. október og í kjölfarið fóru hjálpargögn að berast þangað í fyrsta sinn svo mánuðum skipti. Formleg skilgreining á hungursneyð er háð tilteknum skilyrðum, til að mynda að alvarleg vannæring ríki meðal að minnsta kosti 30% íbúa og að rúmlega tveir af hverjum 10.000 deyi af völdum vannæringar á hverjum degi. IPC segir að þrátt fyrir að sú skilgreining eigi ekki lengur við á Gaza sé neyð íbúa enn mikil. Ef átök hefjast að nýju og flutningur hjálpargagna verður aftur stöðvaður sé hætta á að hungursneyð verði aftur lýst yfir í vor. Ísraelar segja á bilinu 600 til 800 flutningabílar hafa flutt hjálpargögn inn á Gaza á hverjum degi síðan vopnahlé hófst í október. Um 70% þeirra gagnar hafi verið matvæli. Hamas-samtökin segja bílana hins vegar hafa verið færri og að Ísraelar hindri flutning ýmissa nauðsynja inn á Gaza.