Landsmenn keppast við að koma jólagjöfum milli landshluta

Íslendingar keyptu sem aldrei fyrr á tilboðsdögum í aðdraganda jóla og pósturinn hefur vart haft undan að stækka og fjölga póstboxum víða um land. Nú fer hver að verða síðastur að senda jólagjafir milli landshluta með póstinum. Þetta eru síðustu öruggu dagarnir til að koma pökkum með pósti fyrir jól: 23. desember ef sent er frá höfuðborgarsvæðinu út á land* 22. desember ef sent er frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins 19. desember ef sent er á milli annarra landshluta og með landpósti *að undanskildum Bíldudal, Patreksfirði, Tálknafirði og Demantshringnum en síðasti dagur til að póstleggja þangað frá höfuðborgarsvæðinu er 22. desember . Pósturinn slær þó þann varnagla að geri til dæmis leiðinda veður eða færð, þá gætu þessar tímasetningar breyst. Því er alltaf öruggara að vera fyrr á ferðinni. Jólakortunum fækkar – en sumir ríghalda í hefðina Jólakortasendingar hafa dregist mjög saman undanfarin ár og sú þróun virðist halda áfram. Starfsmenn póstsins eru þó enn að bera út jólakort. Rekstrarstjóri póstsins á Akureyri segir kortin þó ekki alveg horfin. „Það eru vissulega töluvert færri jólakort en margir vilja þó halda í hefðina og senda alltaf,“ segir Lilja Gísladóttir, rekstrarstjóri. Síðustu öruggu dagarnir til að koma póstkortum til skila innanlands eru liðnir, en pósturinn reynir þó að vinna með hraði dagana fram að jólum. Netverslun í hæstu hæðum Það hefur verið nóg að gera í fleiru en jólagjafasendingum, því mikið er um að vera í netverslun. „Þessi afsláttarhelgi í kringum svartan föstudag og rafrænan mánudag var ein sú stærsta frá upphafi hjá Póstinum, ef frá er talið árið 2020 þegar covid gerði það að verkum að netverslun var nær það eina sem var í boði,” segir Eymar Plédel Jónsson, framkvæmdastjóri viðskiptavinasviðs Póstsins. Það sé enn mikið um að Íslendingar panti af erlendum netverslunum, en þau séu sérstaklega ánægð með grósku í innlendri netverslun. „Niðurstöður eftir þessa afsláttardaga sýna hins vegar að innlendar netverslanir standa vel að vígi og eru að auka hlutdeild sína, þrátt fyrir alþjóðlega samkeppni,“ segir Eymar.