Töluverður snjór er til fjalla á Norðurlandi og nokkur snjóflóð fallið við Eyjafjörð undanfarna daga. Snjóflóð féllu við sprengingu í Hlíðarfjalli í síðustu viku og nokkur flóð í Öxnadal. Á miðvikudag féllu snjóflóð ofan við Ólafsfjarðarveg. Í dag, föstudag, hafa fallið tvö náttúruleg snjóflóð í Hlíðarfjalli. Engum hefur orðið meint af þessum snjóflóðum. Frá þessu greinir ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands . Hlýnar á laugardag og líklegt að þá falli snjóflóð Ofanflóðavaktin segir hættuna geta aukist á laugardag þegar tekur að hlýna. „Á laugardag hlýnar og geta þá fallið náttúruleg snjóflóð. Þegar kólnar aftur ætti snjóþekjan að styrkjast en veik lög geta þó enn verið til staðar, sérstaklega ofan til í fjöllum.“ Veðurstofan varar því við ferðum um brattlendi við Eyjafjörð fram yfir helgi. Eins og sjá má á korti ofanflóðavaktarinnar er mesta snjóflóðahættan nú við Eyjafjörð og utanverðan Tröllaskaga: