„En um leið þá þarf að hafa íslensku náttúruna í huga og þessa lítt snortnu náttúru sem við finnum ekki víða erlendis. Um leið og við erum komin í næsta land kannski þá er stíllinn svolítið öðruvísi. Það er krefjandi jafnvægislist fyrir okkur að finna rétta meðalveginn,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Náttúruverndarstofnunar, sem tjáir sig þarna um fyrirhugaðar framkvæmdir Bláa lónsins við Hofsjökul. Hún segir að ákveðin stefnubreyting felist í þessum framkvæmdum. Bláa lónið hf. vill byggja hótel og gera baðlón við rætur Hofsjökuls við Hoffell í Nesjum. Framkvæmdirnar eru utan Vatnajökulsþjóðgarðs en eru rétt við mörk hans. 99 umsagnir hafa borist til Skipulagsstofnunar út af þessum fyrirhuguðu framkvæmdum. Umsagnir eru enn að berast um verkefnið þrátt fyrir að umsagnarfrestur hafi runnið út 1. desember. Síðasta umsögnin er dagsett 17. desember. Náttúruverndarstofnun sendi inn umsögn um framkvæmdina. Sigrún segir að stofnunin hafi ekki markað sér skoðun á framkvæmdum Bláa lónsins en undirstrikar að farið verði varlega. Fjallað er um þessa fyrirhugðu uppbyggingu í fréttaskýringaþættinum Þetta helst. Þáttinn má hlusta á hér: Nýtt hótel og baðlón Bláa lónsins við Hofsjökul er til umsagnar hjá Skipulagsstofnun. Forstjóri Náttúruverndarstofnunar segir of snemmt að tjá mat stofnunarinnar á framkvæmdinni. Hins vegar þurfi að fara varlega til að viðhalda ósnortinni náttúru . Hluti af stærri umræðu um nýtingu náttúrunnar Umræðan um þessa fyrirhuguðu framkvæmd er hluti af stærri umræðu um uppbyggingu ferðaþjónustu í nágrenni þjóðgarða á miðhálendinu. Fyrr í desember vakti bygging smáhýsa í Skaftafelli við Vatnajökulsþjóðgarð sterk viðbrögð hjá sumum. Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að Bláa lónið hf. áformar uppbyggingu ferðaþjónustu á tveimur aðskildum svæðum í Hoffelli í Nesjum. Bláa lónið keypti landið undir lónið fyrirhugaða og hótelið í fyrra. Annars vegar er gert ráð fyrir hótelbyggingu og veitingaaðstöðu á skógræktarsvæði vestan undir Hoffellsfjalli og hins vegar baðlóni, gestastofu og tengdum mannvirkjum við Hoffellslón. Til stendur að hótelið verði með allt að 120 herbergjum fyrir um 240 gesti. Það á verða 3 til 4 hæðir. Við Hoffellslón á að reisa baðstað, baðlón, með gestastofu og búningsklefum. Þar á einnig að vera veitingasala og aðstaða fyrir sýningar hvers konar. Samkvæmt áætlunum Bláa lónsins á að vera hægt að taka á móti allt að 1500 gestum á dag. Í athugasemdunum sem skilað var inn eru erindi frá fjölmörgum einstaklingum auk stofnana. Sumir ánægðir, aðrir gagnrýnir Í einni umsögninni, frá manni sem ekki vildi koma í viðtal, segir meðal annars: ,,Fyrirhuguð uppbygging Bláa lónsins í Hoffelli er afar jákvætt skref fyrir svæðið og ber með sér skýra sýn um vandaða, hófstillta og ábyrgðarþróun. Áformin virðast taka fullt tillit til náttúrulegs umhverfis og leggja áherslu á að samræma mannvirki landslagi, þannig að sérkenni svæðisins haldist óspillt.“ Meðal umsagna eru líka gagnrýnin orð. Ein þeirra sem sendu inn gagnrýna umsögn er Erla Guðný Helgadóttir sem er fjallamennskukennari, jöklajarðfræðingur og náttúruverndarsinni. Hún segir um gagnrýni sína á framkvæmdina: „Það er bara fyrst og fremst á forsendum náttúruverndar og nálægðar framkvæmdarinnar við þjóðgarð og þjóðgarðsmörk og þessi þjóðgarður er á heimsminjaskrá og þessi framkvæmd stríðir algerlega gegn þeirri þróun sem á að tíðkast í kringum slík svæði.“ Undirbúningur að mögulegum framkvæmdum Bláa lónsins við Hoffell mun nú halda áfram hjá Skipulagsstofnun og fara í mat á umhverfisáhrifum. Enn þá er hægt að kynna sér framkvæmdina og senda inn umsagnir í Skipulagsgátt .