Orkubú Vestfjarða leitar skýringa hvers vegna varaaflið brást

Bilun í varaaflsvél á Patreksfirði olli rafmagnsleysi á Tálknafirði í um fimm klukkustundir í síðustu viku. Varaaflsvélar Orkubús Vestfjarða á Patreksfirði brugðust þegar Tálknafjarðarlína sló út í síðustu viku, segir Elías Jónatansson, orkubússtjóri. „Venjan er sú að það fer bara inn sjálfvirkt á einni mínutu eða einni og hálfri mínútu en það varð bilun í varaaflinu sem olli því að það fór ekki inn sem skyldi,“ segir Elías. Rafmagnslaust var á Tálknafirði í um fimm tíma. Þegar varaaflið kom aftur inn síðdegis olli það vandræðum hjá notendum. „Það eru uppi sem sagt getgátur um að spennan hafi ekki verið rétt þegar varaaflið kemur inn. Við megum ekki fara út fyrir vikmörk, líklega 10% að mig minnir,“ útskýrir Elías. Raftæki eru gerð til að virka á ákveðinni spennu og ákveðnum straum og frávik geta haft áhrif á virkni þeirra. Á Tálknafirði olli það bilun í búnaði hjá landeldisfyrirtæki með þeim afleiðingum að tuttugu þúsund fiskar drápust. Síðustu fjórar vikur hafa raflínur Landsnets á Vestfjörðum slegið út í fimm tilvikum. „Ég held að það sé nú bara veðrinu um að kenna, það hefur verið bara eins og núna, ísingaveður, það er bilun í gangi núna, það er trúlega ísing sem hefur valdið því.“ Mjólkárlína 1 sló út í fyrrinótt. Vestfirðir voru keyrðir á varaafli á meðan unnið var að viðgerðum. Stuttu eftir eitt í dag var viðgerðum lokið og línan er komin í rekstur aftur. Elías segir að til að komast hjá tíðum útslætti þyrfti virkjun innan Vestfjarða. Hvalárvirkjun myndi leysa einhver vandamál en ekki öll. „Hún myndi engu breyta um Tálknafjarðarlínu, það þarf að tvöfalda þar kerfi Landsnets, sem er reyndar í vinnslu, það er búið að leggja sæstreng en það á eftir að klára að tengja hann.“