Formaður SÁÁ segir nýjan heildarsamning, sem var undirritaður í dag, milli Sjúkratrygginga og SÁÁ um meðferð við fíknisjúkdómum marka tímamót. Fíknisjúkdómur sé nú viðurkenndur sem langvinnur og alvarlegur heilbrigðisvandi sem krefjist faglegrar og samfelldrar meðferðar. Fjárframlög aukin um 500 milljónir á ári Samningurinn byggist á fjórum eldri samningum sem eru sameinaðir í einn. Hann er til fjögurra ára og er fjárhagsramminn rúmlega tveir milljarðar á ári. Heilbrigðisráðherra segir að með samningnum aukist fjárframlög ríkisins til málaflokksins um rúmlega 500 milljónir á ári. „Þetta er gríðarlega mikilvægur samningur fyrir málaflokkinn í heild og auðvitað í samræmi við áherslumál ríkisstjórnar um að stórefla aðgengi að meðferð vegna fíknivanda. Og af því að það er aukinn sveigjanleiki inni í samningnum verður lögð áhersla á meðferð barna og fjölskyldna og það er auðvitað gríðarlega mikilvæg forvörn, og síðan líka meðferð við spilafíkn,“ segir Alma Möller, heilbrigðisráðherra. Þetta er í fyrsta sinn sem meðferð við spilafíkn er viðurkennd sem hluti af þjónustu SÁÁ og ríkið hyggst taka þátt í kostnaði við meðferðarúrræði. Ný göngudeild í bígerð Með nýjum samningi verður þjónusta utan inniliggjandi meðferðar efld, sem á að auka jafnræði og bæta aðgengi að meðferðarúrræðum. Ný göngudeild verður opnuð sem er ætlað að sameina inniliggjandi meðferð á Vogi og eftirmeðferð á Vík. „Það að auka þjónustu í göngudeild eykur möguleika þeirra sem eiga erfitt með að fara út af heimilum til þess að fá þjónustu. Dagdeildin mun snúast um að það verði fráhvarfs- og fíknimeðferð á göngudeild sem er mjög gott. Það eru ekki allir sem þurfa á inniliggjandi meðferð að halda. Það má segja að meðferðarleiðum fjölgar með þessum samningi,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ. Þá verður aukinn stuðningur við börn og fjölskyldur sjúklinga í formi sálfræðiþjónustu og fræðslu. „ Við vorum vanfjármögnuð til margra ára og samtökin hafa borgað með þjónustunni í mörg, mörg ár. Þetta þýðir að nú erum við í raun að fá rétt kostnaðarverð á þjónustuna og á sama tíma viðurkenningu á að þessi þjónusta kostar,“ segir Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ. Vonast til þess að biðlisti hverfi Anna Hildur segir samninginn marka tímamót í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Með honum sé fíknisjúkdómur viðurkenndur sem alvarlegur og langvinnur heilbrigðisvandi sem krefjist samfelldrar og faglegrar meðferðar. Hann veiti SÁÁ aukið svigrúm til að forgangsraða meðferð eftir þörfum og tryggja um leið skýrari ábyrgð og betri þjónustu. Þetta er algjörlega breytt vinnulag þannig við vonumst til þess að biðlistinn bara hverfi.