Bæta þarf löggjöf um þjónustu við þolendur ofbeldis og samvinnu þvert á stofnanir við að stöðva ofbeldi og vernda þolendur, segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra. Tryggja þurfi að það sé skýrt hvenær heilbrigðisstarfsfólki sé heimilt að rjúfa þagnarskyldu og tilkynna ofbeldi til lögreglu. Umræða um þagnarskyldu lækna hefur kviknað í kjölfar þess að kona varð föður sínum að bana, eftir að hafa beitt foreldra sína langvarandi ofbeldi. Læknar sögðust ekki hafa mátt tilkynna ofbeldið til lögreglu því foreldrarnir vildu það ekki. Þagnarskylda heilbrigðisstarfsfólks gildir nema lög bjóði annað eða rökstudd ástæða sé til þess að rjúfa hana vegna brýnnar nauðsynjar. Þegar ekki er brýn nauðsyn eiga heilbrigðisstarfmenn að byggja tilkynningu til lögreglu á samþykki sjúklings. „Þegar hins vegar við erum að sjá fram á alvarlegan líkamsskaða, eða það er nauðsyn til að vernda líf fólks, þá teljum við það flokkast undir brýna nauðsyn. Þá eigi að miðla upplýsingum áfram,“ segir Eygló. Þá fái þolendur tækifæri til að hitta lögregluna og fá útskýringu á því hvað tekur við ef lögreglan ákveður að hefja rannsókn. Einnig sé hægt að ræða við lögreglumenn hjá þolendamiðstöðvum , líkt og Bjarkarhlíð. „Þegar við erum komin í þessar aðstæður, þar sem við erum komin yfir þessi mörk, þar sem er hætta á alvarlegum líkamsskaða eða dauða, þá þurfum við að miðla upplýsingum til að koma í veg fyrir það. Það er það sem við höfum verið að leggja áherslu á. Það þarf að þróa ferlana til hjálpa heilbrigðisstarfsfólki að vega og meta þessar aðstæður.“ Lagabreyting um að heilbrigðisstarfsfólk megi tilkynna að beiðni sjúklings hafi verið mikil framför og ýmis jákvæð skref hafi verið tekin síðustu ár. Önnur séu fram undan, til að mynda frumvarp dómsmálaráðherra sem felur meðal annars í sér að nálgunarbanni verði framfylgt með rafrænu eftirliti. „Ekki hlutverk hins opinbera að viðhalda ofbeldi“ Eygló segir lögregluna hafa ítrekað, í kjölfar þess að fyrrgreindum lögum var breytt 2023, að einnig þyrfti að líta til þess hvað tekur við þegar tilkynnt hefur verið um ofbeldi. Þá þurfi einnig að upplýsa heilbrigðisstarfsfólk betur um hvernig það eigi að bregðast við þegar grunur er um alvarlegt ofbeldi. „Það er ekki hlutverk stjórnvalda eða hins opinbera að viðhalda ofbeldi, til dæmis er okkar hlutverk að gera það sem við getum til að vinna gegn því.“ Einnig þurfi að efla með löggjöf þjónustu við bæði þolendur og gerendur til þess að hægt sé að stöðva ofbeldi. Þá þurfi einnig að auka heimildir til samvinnu lykilstofnana innan kerfisins og þolendasamtaka til að samræma viðbrögð í ofbeldismálum. Þar yrði að huga að bæði þolendum og gerendum sem vilja hætta að beita ofbeldi. „Við þurfum að bæta lög þegar kemur að þjónustu við þolendur og í raun og veru líka sakborninga, eða gerendur, í ofbeldismálum til að hjálpa fólki að komast út úr þessum aðstæðum. Það er það sem reynslan og rannsóknir sýna að fólk er oft ekki fært um að gera þetta af sjálfsdáðum þannig að með því að efla löggjöfina og efla þjónustu, þá aukum við líkurnar á því að við getum hjálpað fólki til þess að stöðva ofbeldi, en við gerum það ekki með því að gera ekki neitt.“