Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, leiðir stjórn nýrrar gervigreindarmiðstöðvar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Hún tekur við stöðunni fyrir hönd Almannaróms. Gervigreindarmiðstöðin var stofnuð í haust og Katrín er því fyrsti stjórnarformaðurinn til að leiða stjórnina. Í tilkynningu Almannaróms segir að hlutverk miðstöðvarinnar sé að efla samstarf, hraða upptöku gervigreindar og styrkja samkeppnishæfni svæðisins í alþjóðlegu samhengi. Spennt fyrir nýju hlutverki „Ég er afar spennt að taka að mér hlutverk fyrsta stjórnarformanns þessarar mikilvægu miðstöðvar. Þar ætlum við að kortleggja þau nýju tækifæri sem gervigreindin skapar og tryggja að þau nýtist til að efla norræna verðmætasköpun, ásamt því að hvetja til rannsókna, þróunar og innleiðingar á gervigreind,“ er haft eftir Katrínu í tilkynningu. „Samtímis mun stjórnin hafa það að leiðarljósi að varðveita sameiginleg norræn gildi okkar: lýðræði, mannréttindi og jafnrétti, í virku samtali við fyrirtæki og stjórnmálamenn á svæðinu. Við búum að dýrmætri reynslu hér á Íslandi þar sem við höfum lagt áherslu á að íslensk tunga verði gjaldgeng í heimi nýrrar tækni,“ segir Katrín. Nýtur víðtæks trausts sem virtur og þekktur leiðtogi Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, segir bakgrunn Katrínar falla vel að markmiðum miðstöðvarinnar. „Sem virtur og þekktur leiðtogi á alþjóðasviðinu býr Katrín yfir mikilli pólitískri reynslu af Norðurlöndunum og nýtur víðtæks trausts. Aðkoma Katrínar að New Nordics AI setur skýran tón og markar stefnu um að brúa bilið á milli opinberra stofnana, iðnaðar og alþjóðlegra aðila.“